Sveppir (fræðiheiti: Fungi) eru um margt sérstæðar lífverur og því flokkaðir í sitt eigið ríki, svepparíkið. Lengi vel voru þeir samt flokkaðir með plöntum enda við fyrstu sýn líkari þeim en dýrum. Grundvallarmunur er þó á sveppum og plöntum þar sem plöntur eru frumbjarga og með blaðgrænu til ljóstillífunar, en sveppir geta ekki ljóstillífað og myndað sína eigin næringu sjálfir, heldur eru rotverur og nærast á lífveruleifum svo sem dauðum plöntuhlutum og dýraleifum.[1] Þeir passa heldur ekki í hóp með dýrum vegna þess að þeir draga í sig næringu í stað þess að melta hana og þeir hafa frumuvegg. Tiltölulega stutt er síðan sveppir voru færðir úr plönturíkinu og í sitt eigið ríki.

Sveppir

Vísindaleg flokkun
Veldi: Heilkjörnungar (Eukaryota)
Ríki: Sveppir (Fungi)
L., 1753
Fylkingar

Sveppir geta tekið yfir mjög stór svæði. Sá hluti sem sést ofanjarðar, hatturinn (sveppaldinið), eru einungis kynfæri sveppþráðakerfis (mýslis) sem er ofan í jörðinni, stundum á margra hektara svæði. Sveppir eru margir fjölfruma og vaxa þræðirnir í endann, en ger er ágætt dæmi um einfruma svepp. Fléttur teljast til sveppa[2] en þær eru ólíkar öðrum sveppum að því leyti að þær eru sambýli svepps og þörunga eða baktería sem jafnframt gerir þær frumbjarga. Sumir sveppir tengjast einnig rótarendum plantna og mynda með þeim svepprót.

Á Íslandi eru yfir 550 tegundir kólfsveppa sem geta orðið það stórir að vel má sjá þá með berum augum, en nýjar sveppategundir greinast nánast á hverju ári.[3] Suma þeirra má borða en aðrir eru eitraðir. Þegar sveppir eru tíndir verður alltaf að ganga vel úr skugga um að um óeitraðar sveppategundir sé að ræða, að þeir séu bragðgóðir og óskemmdir. Í heiminum öllum eru rúmlega 2.000 sveppategundir ætar,[4] en það er aðeins lítill hluti þeirra 31.000 tegunda kólfsveppa og 33.000 tegunda asksveppa sem þekktar eru. Alls eru þekktar nálægt 148.000 tegundir sveppa í heiminum, en talið er líklegt að tegundir þeirra séu 2,2-3,8 milljónir talsins.[5]

Einkenni

breyta
 
Sveppþráðarfruma: 1) Frumuveggur; 2) Skilrúm; 3) Hvatberi; 4) Frymisbóla; 5) Ergósteról; 6) Ríbósóm; 7) Kjarni; 8) Frymisnet; 9) Lípíð; 10) Frumuhimna; 11) Spitzenkörper; 12) Golgilíffæri.

Lengst af, áður en sameindaþróunarfræði kom til sögunnar, voru sveppir flokkaðir með jurtum vegna þess að þeir voru taldir líkjast þeim mest. Líkt og plöntur eru sveppir að mestu óhreyfanlegir og mynda þannig svipuð tengsl við búsvæði sitt. Líkt og plöntur vaxa margir sveppir í mold og sumir mynda áberandi æxlihnúða sem minna á plöntur eins og mosa. Vegna þessara líkinda og eldri flokkunarkerfa er þessi misskilningur er enn algengur meðal fólks.[6][7] Nú eru sveppir flokkaðir í sérstakt ríki, svepparíkið, sem er ólíkt ríkjum bæði dýra og plantna. Talið er að sveppir hafi tekið að greina sig frá þróunarlínu dýra við upphaf nýfrumlífsaldar fyrir um 1000 milljón árum síðan.[8][9] Sveppir eiga ýmis formfræðileg, lífefnafræðileg og erfðafræðileg einkenni sameiginleg með öðrum lífverum, meðan önnur einkenni eru einstök og greina þá frá öðrum ríkjum lífvera.

Tilvísanir

breyta
  1. Jón Már Halldórsson (13.12.2006). „Á hverju og hvernig lifa sveppir?“. Vísindavefurinn.
  2. Hörður Kristinsson (3.9.2003). „Hver er munurinn á fléttum og skófum? Eru skófir fléttur?“. Vísindavefurinn.
  3. Helgi Hallgrímsson (2010). Sveppabókin: Íslenskir sveppir og sveppafræði. Reykjavík: Skrudda.
  4. Li, H., Tian, Y.; og fleiri (2021). „Reviewing the world's edible mushroom species: A new evidence‐based classification system“. Comprehensive Reviews in Food Science and Food Safety. 20 (2). doi:10.1111/1541-4337.12708.
  5. Hawksworth DL, Lücking R (júlí 2017). „Fungal Diversity Revisited: 2.2 to 3.8 Million Species“. Microbiology Spectrum. 5 (4): 79–95. doi:10.1128/microbiolspec.FUNK-0052-2016. ISBN 978-1-55581-957-6. PMID 28752818.
  6. „Fifth-Grade Elementary School Students' Conceptions and Misconceptions about the Fungus Kingdom“. Sótt 5. október 2022.
  7. „Common Student Ideas about Plants and Animals“ (PDF). Sótt 5. október 2022.
  8. Bruns T (október 2006). „Evolutionary biology: a kingdom revised“. Nature. 443 (7113): 758–61. Bibcode:2006Natur.443..758B. doi:10.1038/443758a. PMID 17051197. S2CID 648881.
  9. Baldauf SL, Palmer JD (desember 1993). „Animals and fungi are each other's closest relatives: congruent evidence from multiple proteins“. Proceedings of the National Academy of Sciences of the United States of America. 90 (24): 11558–62. Bibcode:1993PNAS...9011558B. doi:10.1073/pnas.90.24.11558. PMC 48023. PMID 8265589.

Heimildir

breyta
  • Helgi Hallgrímsson. (2010). Sveppabókin. Íslenskir sveppir og sveppafræði. Skrudda, Reykjavík.
  • Helgi Hallgrímsson. (1979). Sveppakverið. Garðyrkjufélag Íslands, Reykjavík.
   Þessi líffræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.