Reisubók Ólafs Egilssonar
Reisubók séra Ólafs Egilssonar var skrifuð af séra Ólafi Egilssyni, presti í Ofanleitissókn í Vestmannaeyjum. Ólafur var numinn af landi brott og fluttur til Alsír í Tyrkjaráninu þann 16. júlí 1627 ásamt seinni eiginkonu sinni, Ástu Þorsteinsdóttur, börnum þeirra tveimur (það þriðja fæddist á leiðinni til Alsír) og hátt á fjórða hundrað annarra Íslendinga. Séra Ólafur kom aftur heim til Íslands 6. júlí 1628 og hóf fljótlega að skrifa ferðasöguna meðan þessi lífreynsla var enn í fersku minni. Þegar hann kom heim var búið að vígja annan prest í Ofanleitissókn svo hann fékk ekki embætti þar aftur fyrr en 1636. Þar þjónaði hann til dauðadags 1639. Ásta kom heim árið 1637 ásamt fleiri löndum sínum.
Bókin
breytaÓlafur var 64 ára gamall þegar hann hóf að skrifa söguna árið 1628. Í bókinni rekur Ólafur ferðasöguna frá því fyrst sást til Tyrkjanna við Vestmannaeyjar þar til hann kom aftur heim til Íslands ári síðar. Þá hafði hann verið marga mánuði á ferðalagi um Evrópu en hann var sendur á fund Danakonungs til að freista þess að fá Íslendingana leysta úr ánauðinni. Það gekk ekki og frá Danmörku kom hann heim til Íslands.
Ólafur var fyrstur norrænna manna til að skrifa bók um líf og lífshætti fólks í „barbaríinu“ en svo voru lönd íslams í Norður-Afríku kölluð. Hann var allt í einu kominn inn í nýstárlegan heim sem var gjörólíkur öllu sem hann hafði áður kynnst. Hann sá til dæmis glerglugga í Genúa í fyrsta sinn á ævinni. Veðráttan, umhverfið, maturinn, fólkið, tungumálið og klæðnaðurinn, allt var nýtt fyrir honum og allt vakti þetta athygli hans og hann tók vel eftir öllum hlutum og þykir lýsa þeim vel í bókinni. Einnig eru staðhættir í bókinni álitnir vera nokkuð réttir en þó var eitthvað um að fólk reyndi að villa um fyrir honum og gabba hann.
Meðan Ólafur skrifaði bókina voru kona hans og börnin þrjú enn í ánauðinni. Íbúarnir í Alsír voru múslímar og Ólafur var hræddur um að ástvinir hans létu turnast, eins og það var kallað að skipta um trú. Því má gera ráð fyrir að Ólafur hafi hugsað allt annað en hlýtt til illvirkjanna meðan á skrifum bókarinnar stóð en það vekur athygli að í bókinni lætur hann þá njóta sannmælis. Frásögn hans þykir gædd ótrúlega hlutlægum blæ, er ýkjulaus og án ofstækis. Hann talar ekki bara um það slæma sem „Tyrkirnir“ gerðu heldur getur hann líka þess sem þeir gerðu vel við fólkið og segir til dæmis frá því að þegar yngsti sonur hans fæddist á hafi úti á leiðinni til Alsír þá hafi þeir gefið barninu gamlar skyrtur utan um sig.
Útgáfan
breytaÍ bókinni eru 27 kaflar og flestir þeirra eru mjög stuttir. Margir þeirra enda á orðunum: „Vér erum drottins“ og í þeim felst það trúnaðartraust og sú vissa að allir kristnir menn séu undir handleiðslu drottins. Myndin hér til hliðar er af forsíðu bókarinnar á dönsku en talið er að Ólafur hafi skrifað bókina á dönsku.
Árið 1852 gáfu þeir „Hallvarður Hængsson“ og „Hrærekur Hrólfsson“ (en á bak við þessi dulnefni leyndust þeir Gísli Magnússon kennari og Magnús Grímsson prestur og þjóðsagnasafnari) út Reisubókina undir titlinum: Lítil saga um herhlaup Tyrkjans á Íslandi árið 1627. Þessi útgáfa var gerð eftir handriti frá 19. öld. Seinna gaf Sögufélagið Reisubókina út, eftir að hafa lagt í mikla vinnu við handritasamanburð í heimildasafni um Tyrkjaránið á Íslandi 1627 og kom bókin út á árunum 1906 – 1909. Sú bók sem getið er í heimildaskrá þessarar greinar var prentuð eftir þeirri útgáfu. Sjálft handritið er í Thottssafni í Kaupmannahöfn, nr 514 en upprunalega handritið er glatað.
Í útgáfu Reisubókarinnar frá árinu 1969 sem Almenna bókafélagið gaf út eru auk frásagnar Ólafs skrif Kláusar Eyjólfssonar lögréttumanns um Tyrkjaránið í Vestmannaeyjum. Ennfremur eru tvö bréf sem skrifuð voru af íslenskum föngum í Alsír og voru send heim til Íslands og hafa varðveist. Annars vegar bréf Jóns Jónssonar frá Grindavík sem hann skrifaði til foreldra sinna árið 1630 og hins vegar bréf Guttorms Hallssonar sent til Íslands 1631. Síðast í bókinni er svo stutt umfjöllun um þau teikn sem höfundur telur sig vita að hafi sést dagana og mánuðina áður en Tyrkjaránið var framið.
Samtíminn
breytaBókin byrjar á löngum inngangi þar sem fjallað er m.a. um ásandið í heiminum þegar Tyrkjaránið átti sér stað. Þar er fjallað um samskipti Íslendinga og Dana áratugina á undan Tyrkjaráninu en einokunarverslun Dana hafði verið í gildi frá árinu 1602. Þess er einnig getið að Guðbrandsbiblía hafi komið út á prenti um 20 árum eftir að séra Ólafur fæddist eða árið 1584. Siðaskiptin voru nokkru áður eða milli 1540 og 1550. Tyrkjaránið gerist á Lærdómsöld, þ.e. á milli siðaskiptanna og upplýsingaraldar og á þessum tíma ruddi fornmenntastefnan sér til rúms en með henni fór fólk að hafa meiri áhuga á að skrá atburði líðandi stundar í annála og fyrsta Íslandssagan var skrifuð um þetta leyti.
Tenglar
breytaHeimild
breytaÓlafur Egilsson (1969). Reisubók séra Ólafs Egilssonar. Almenna Bókafélagið.