Súlnasker
Súlnasker er ein Vestmannaeyja og er suðvestur af Heimaey. Þar er önnur stærsta súlnabyggð á landinu. 60-70 metra háir hamrar umlykja eyna og er brimasamt við hana og uppganga erfið. Skerið stendur á fjórum bergstöplum eða súlum og er ýmist sagt draga nafn af þeim eða af súluvarpinu.
Mikill halli er norðan á eynni. Í þjóðsögunni Súlnasker og skerpresturinn er hann skýrður þannig að í fyrsta sinn sem farið var í skerið hafi tveir menn komist þar upp og annar hafi sagt: „Hér er ég þá kominn fyrir guðs náð,“ en hinn sagði: „Hér er ég kominn hvort guð vill eða ekki.“ Snaraðist skerið þá á hliðina og hristi guðleysingjann af sér en skerpresturinn sem sagður er búa í Súlnaskeri bjargaði hinum.