Stanley Rous
Sir Stanley Ford Rous (25. apríl 1895 – 18. júlí 1986) var enskur knattspyrnufrömuður og dómari. Hann gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Enska knattspyrnusambandið og var forseti FIFA um árabil.
Stanley Rous | |
---|---|
Fæddur | 25. apríl 1895 |
Dáinn | 18. júlí 1986 (91 árs) |
Þjóðerni | Enskur |
Störf | Íþróttaforkólfur |
Þekktur fyrir | að vera forseti FIFA |
Ferill og störf
breytaStanley Rous fæddist í Suffolk, sonur matráðs en hóf kennaranám áður en hann gekk í herinn í fyrri heimsstyrjöldinni þar sem hann þjónaði víða um lönd. Að stríði loknu gerðist hann íþróttakennari í framhaldsskóla.
Hann lék knattspyrnu með áhugamannaliðum sem markvörður þar til hann handarbrotnaði og varð að leggja hanskana á hilluna. Í kjölfarið vaknaði áhugi hans á dómgæslu. Hann hóf að dæma í ensku deildarkeppninni árið 1927 og flautaði sinn fyrsta landsleik síðar sama ár. Alls dæmdi hann 34 landsleiki á ferlinum. Árið 1934 hlotnaðist honum sá heiður að dæma úrslitaleik ensku bikarkeppninnar milli Portsmouth og Manchester City. Skömmu síðar ákvað hann að snúa baki við dómarahlutverkinu.
Mikilvægi Rous lá þó ekki fyrst og fremst í dómarastörfum hans innan vallar heldur í umritun hans á knattspyrnulögunum með það að markmiði að gera þau skýrari og skiljanlegri. Þá var hann brautryðjandi í vísindalegri nálgun varðandi það hvernig best væri að dómarar og línuverðir ættu að standa hver miðað við annan til að sjá sem best til. Þær leiðbeiningar urðu fljótt viðtekin framkvæmd í dómarastéttinni.
Við stjórnvölinn
breytaAð dómaraferlinum loknum sneri Rous sér að stjórnarstörfum í knattspyrnuhreyfingunni. Hann var ritari Enska knattspyrnusambandsins frá 1934-62. Hann starfaði sömuleiðis á vettvangi UEFA og varð varaforseti sambandsins árið 1960 uns hann tók við forsetaembættinu í FIFA árið eftir. Forsetatíð hans frá 1961 til 1974 var viðburðarík en einkenndist líka af sívaxandi spennu milli gamla og nýja tímans í stjórn sambandsins.
Það sem fór verst með orðspor Rous var einarður stuðningur hans við aðild Suður-Afríku að FIFA þrátt fyrir kynþáttaaðskilnaðarstefnuna þar í landi. Knattspyrnusamband Afríku hafði vísað Suður-Afríku á dyr árið 1958 og það sama gerði FIFA árið 1961 eftir að stjórnin þar í landi neitaði að uppfylla skilyrði um bann við mismunun. Tveimur árum síðar ferðaðist Rous til Suður-Afríku og komst að þeirri niðurstöðu hleypa landinu aftur inn í sambandið á grunni loforða um að tefla til skiptis fram í forkeppni heimsmeistaramóta liðum sem alfarið væru skipuð hvítum eða þeldökkum leikmönnum. Þetta sættu fulltrúar á ársþingi FIFA sig ekki við og var Suður-Afríku fyrst vikið tímabundið úr sambandinu og loks rekið alfarið úr því nokkrum árum síðar. Rous þráaðist við að kyngja þeirri niðurstöðu og hélt áfram að tala máli Suður-Afríku og íhugaði jafnvel að stofnsetja sérstakt álfusamband í sunnanverðri Afríku til að koma Suður-Afríku og Ródesíu inn bakdyramegin.
Fylgispekt Rous við Suður-Afríku kom honum um koll árið 1974 þegar João Havelange bauð sig fram gegn honum. Havelange hafði sigur með atkvæðum fulltrúa þriðja heims landa sem fengið höfðu sig fullsödd af ráðríkum gömlum nýlenduþjóðum. Strax í kjölfar ósigursins í forsetakjörinu var Rous þó skipaður heiðursforseti sambandsins.
Heimildir
breyta- Fyrirmynd greinarinnar var „Stanley Rous“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 21. júlí 2022.