Leopold Kielholz
Leopold „Poldi“ Kielholz (f. 9. júní 1911 - d. 4. júní 1980) var knattspyrnumaður frá Sviss. Hann var fyrirliði og markahæsti leikmaður svissneska landsliðsins á HM 1934.
Ævi og ferill
[breyta | breyta frumkóða]Leopold Kielholz fæddist í Basel og hóf knattspyrnuferil sinn með ýmsum borgarliðum, þar á meðal FC Basel frá 1930 til 1934. Hann lék fyrir ýmis lið í heimalandinu og Stade Reims í Frakklandi til ársins 1943 þegar hann lagði skóna á hilluna. Hann varð tvívegis svissneskur meistari með Servette FC Genéve, árin 1933 og 1934. Í seinna skiptið varð hann jafnframt markakóngur deildarinnar.
Hann var augljós kostur í svissneska landsliðið sem hélt til Ítalíu á HM 1934. Hann skoraði tvö fyrstu HM-mörk Sviss í 3:2 sigri á Hollandi og annað tveggja marka liðsins í 2:3 tapi gegn Tékkóslóvakíu. Kielholz skoraði alls 12 mörk í 17 landsleikjum sínum á árabilinu 1933 til 1938. Hann var í landsliðshópi Sviss á HM 1938 í Frakklandi en kom ekki við sögu.
Kielholz hafði verið spilandi þjálfari hjá Stade Reims 1936 til 1937. Hann stýrði síðar svissneska landsliðinu, fyrst frá 1950 til 1953 og svo aftur 1954 til 1958.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Leopold Kielholz“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 2. júlí 2023.