Fara í innihald

Suður-Íshaf

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Suður-Íshaf

Suður-Íshaf (stundum kallað Suðurhaf eða Suðurskautshaf) er hafið sem umlykur Suðurskautslandið. Suður-Íshafið er næstminnst af heimshöfunum fimm (Atlantshaf, Kyrrahaf, Indlandshaf, Norður-Íshaf og Suður-Íshaf), stundum er þó bara talað um þrjú heimshöf (Atlantshaf, Kyrrahaf og Indlandshaf) og er þá sagt að þessi þrjú höf nái öll að Suðurskautslandinu. Landfræðifélag Bandaríkjanna ákvað að viðurkenna Suður-Íshafið sem fimmta heimshafið þann 8. júní 2021.[1][2]

Landfræði

[breyta | breyta frumkóða]

Mörk Suður-Íshafsins eru jafnan miðað við 60. breiddargráðu í suður og það nær alveg að umlykja Suðurskautslandið. Með könnunarleiðöngrum sínum á 8. áratug 18. aldar sannaði James Cook að samfellt hafsvæði væri umhverfis jörðina á suðlægum breiddargráðum. Síðan þá hafa kortagerðarmenn deilt um tilvist og umfang Suður-Íshafsins. Sumir vilja skilgreina það sem hluta af Atlantshafi, Indlandshafi og Kyrrahafi, sem þá næðu að strönd Suðurskautslandsins. Alþjóðasjómælingastofnunin hefur bent á að nýlegar rannsóknir sýni fram á mikilvægi hringrásar hafsins í suðri og að rétt sé að miða mörk Suður-Íshafsins við norðurmörk þeirrar hringrásar. Stofnunin hefur ekki formlega tekið upp þá stefnu sem fólst í endurskoðun skilgreininga hennar frá 2000 að mörkin skyldi miða við 60. breiddargráðu. Aðrir vilja miða við breytileg mörk Suður-Íshafssamrunans.

Heildarflatarmál Suður-Íshafsins er 21,96 milljón ferkílómetrar. Það er minnst heimshafana fimm. Stærst þeirra er Kyrrahafið sem er 165,2 milljón ferkílómetrar sem gerir það um 7,5 sinnum stærra. Suður-Íshafið rúmar um 71,8 milljón rúmmetra af vatni og nær yfir einn sextánda af allri Jörðinni.

Suður-Íshafið er að meðaltali 3.270 metrar djúpt en mesta dýpi þess er 7.432 metrar í Suður-Sandvíkurdjúpál suðaustur af eyjunni Suður-Georgíu. Út frá landinu kemur landgrunn sem nær að meðaltali um 420 kílómetra út frá ströndinni en lengsta landgrunnið er um 2.600 kílómetrar við Weddell- og Rosshafið.

Straumurinn í Suður-Íshafi er nokkuð flókinn. Í það renna straumar úr aðlægum höfum sem eru hlýrri. Helsta einkenni á straumum Suður-Íshafsins er pólhverfur straumur sem ferðast í austur í kringum Suðurskautslandið.[1]

Dýralíf á landi er mjög frábrugðið öðrum heimsálfum vegna þess hve kalt það getur orðið og veðráttan er allt önnur en í öðrum heimsálfum en kuldinn getur farið niður í um -80°C og vindhraðinn orðið allt að 300 km/klst. Ísbreiðan sem þekur um 98% af Suðurskautslandinu er að meðaltali um 2 kílómetrar að þykkt. Það er af þessum ástæðu sem að dýralífið er að mestu leyti við ströndina ásamt því að vera í hafinu. Það eru engin landspendýr sem lifa á Suðurskautslandinu en þar er þó að finna sex tegundir af hreifadýrum en það eru pardusselur (Hydrurga leptonyx), weddellselur (Leptonychotes weddelli), átuselur (Lobodon carcinophagus), loðselur (Arctocephalus gazella), kóngasæfíll (Mirounga leonina) og rossselur (Ommatophoca rossii). Hreifadýrin fara upp á ísinn við ströndina til þess að kæpa. Selastofnarnir við Suðurskautslandið standa mjög vel en talið er að um 60% allra sela á jörðinni sé að finna þar.[3]

Keisaramörgæs[4]

Við Suðurskautslandið eru um 50 tegundir fugla en þar af eru 7 tegundir mörgæsa. Suðurskautslandið er sennilega hvað mest þekkt fyrir að vera heimkynni mörgæsanna en mörgæsir sem þar er að finna eru adeliemörgæs (Pygoscelis adeliae), hökubandsmörgæs (Pygoscelis antarctica), keisaramörgæs (Aptenodytes forsteri), klappamörgæs (Eudyptes chrysolophus), klettamörgæs (Eudyptes chrysocome) og konungsmörgæs (Aptenodytes patagonicus). Suðurskautslandið er eini staðurinn í heiminum þar sem keisaramörgæs]] lifir villt. Það eru líka nokkrar fuglategundir sem lifa við Suðurskautslandið, til dæmis albatrossar, svölur og suðuríshafsskúmur.[3]

Lífríki hafsins er sennilega það ríkulegasta sem finnst í heiminum en á vorin verður þörungablóminn mjög mikill. Suðurhafsljósátan (Euphausia superba) græðir vel á því en hún nærist helst á þessum þörungum. Suðurhafsljósátan er mjög lítið dýr, einungis um 6 cm löng og aðeins 2 grömm að þyngd. Það eru svo margar hvalategundir sem éta suðurhafsljósátuna en hún er ein helsta fæða nokkurra hvalategunda eins og steypireyðar, langreyðar og annarra skíðishvala.[3]

Suðurhafsljósáta[5]

Helstu hvalategundir sem er að finna á svæðinu eru búrhvalur, steypireyður, langreyður, hnúfubakur og háhyrningur. Það er gjarnan þannig að stærri hvalir fara frá pólunum að miðbaug til þess að eiga afkvæmi sín og ganga svo aftur að pólunum en á sumum tegundum má greina smá mun á þeim sem fara til til norðurs frá miðbaug eða til suðurs. Til dæmis eru háhyrningar sem eru í Suðurhafi oft ljósari eða gráleitari yfirlitum en þeir sem til dæmis eru við Ísland, sem eru dekkri.[3]

Það eru þekktar um 20 þúsund fiskitegundir í heiminum en í Suður-Íshafi eru aðeins þekktar um 100 tegundir. Þær tegundir sem er að finna í Suður-Íshafi eru búnar að aðlaga sig mjög vel þeim kulda sem er þar en hitastig sjávar er um -2–0°C. Nokkrar tegundir eru að finna þar sem eru einnig til dæmis í kringum Ísland en þær tegundir eru þá yfirleitt af öðrum stofni. Dæmi um þetta er þorskurinn; Það er þorskstofn sem er í kringum Ísland og svo er annar þorskstofn sem er mjög líkur þeim íslenska í Suður-Íshafi. Þetta eru þó alveg aðskildir stofnar.[3]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 Kjartansson, Kjartan. „Viðurkenna Suður-Íshafið sem heimshaf - Vísir“. visir.is. Sótt 26. september 2021.
  2. Metcalfe, Tom (14. júní 2021). „Earth's fifth ocean just confirmed“. livescience.com (enska). Sótt 26. september 2021.
  3. 3,0 3,1 3,2 3,3 3,4 „Hvernig er dýralíf á Suðurskautslandinu?“. Vísindavefurinn. Sótt 26. september 2021.
  4. „Keisaramörgæs“, Wikipedia, frjálsa alfræðiritið, 14. október 2020, sótt 26. september 2021
  5. „Sjávardýrið krill er ein helsta fæða mörgæsa. Hvert er íslenska nafn þessa sjávardýrs?“. Vísindavefurinn. Sótt 26. september 2021.
  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.