Ólafur Ragnar Grímsson
Ólafur Ragnar Grímsson (f. 14. maí 1943) er fimmti forseti Íslands, fyrrum ráðherra og þingmaður. Ólafur er doktor í stjórnmálafræði, hann var prófessor við Háskóla Íslands og sat á þingi fyrir Samtök frjálslyndra og vinstri manna og Alþýðubandalagið. Áður var hann í Framsóknarflokknum og var þar kenndur við Möðruvallahreyfinguna.
Ævi
breytaÓlafur fæddist á Ísafirði þann 14. maí 1943, sonur Gríms Kristgeirssonar hárskera og Svanhildar Ólafsdóttur Hjartar húsmóður. Árið 1974 kvæntist hann Guðrúnu Katrínu Þorbergsdóttur og ári seinna eignuðust þau dæturnar Guðrúnu Tinnu og Svanhildi Döllu. Guðrún lést úr hvítblæði árið 1998. Á sextugsafmæli sínu árið 2003 kvæntist hann Dorrit Moussaieff.
Menntun
breytaHann lauk stúdentsprófi frá MR 1962 og gegndi þar embætti forseta Framtíðarinnar 1960-1961[1]. Eftir stúdentspróf fór hann til Englands til að læra stjórnmálafræði og hagfræði. Árið 1965 útskrifaðist hann úr háskólanum í Manchester í Englandi með BA gráðu í báðum þeim fögum. Árið 1970 lauk hann doktorsgráðu í stjórnmálafræði úr sama skóla.
Starfs- og pólitískur ferill
breytaÓlafur lét snemma að sér kveða í stjórnmálum og sat í miðstjórn Framsóknarflokksins á árunum 1967 – 1974, framkvæmdastjórn sama flokks árin 1969 – 1973, en klauf sig frá flokknum ásamt fleirum í svokallaðri Möðruvallahreyfingu 1974. Ólafur var í blaðstjórn Tímans 1967 – 1971, í útvarpsráði 1971 – 1975, formaður framkvæmdastjórnar Samtaka frjálslyndra og vinstri manna 1974 – 1976 og í miðstjórn og framkvæmdastjórn Alþýðubandalagsins frá 1977. Hann var formaður framkvæmdastjórnar Alþýðubandalagsins á árunum 1983–87. Árið 1987 var hann kosinn formaður Alþýðubandalagsins og gegndi því til ársins 1995. Lektor var Ólafur skipaður fyrir í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands það var árið 1970 og hann lagði grunn að kennslu í stjórnmálafræði. Hann var skipaður sem fyrsti prófessor við Háskóla Íslands árið 1973[2] og var það í stjórnmálafræðinni. Ólafur stundaði rannsóknir í stjórnmálafræði við Háskóla Ísland á árunum 1970-1988.
Ólafur var fyrst kosinn varaþingmaður árið 1974 og komst svo á þing 1978. Árin 1974 og 1975 kom hann inn sem varaþingmaður fyrir Samtök frjálslyndra og vinstri manna, en eftir 1978 sat hann sem þingmaður fyrir Alþýðubandalagið. Ólafur gegndi embætti fjármálaráðherra árin 1988 – 1991 í síðustu ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar. Í forsetakosningunum 1996 var hann síðan kjörinn í embætti forseta Íslands, endurkjörinn í kosningunum árið 2000 án atkvæðagreiðslu og aftur Forsetakosningarnar árið 2004 (gegn Ástþóri Magnússyni og Baldri Ágústssyni). Hann var síðan aftur sjálfkjörinn 2008. Í forsetakosningum árið 2012 var Ólafur endurkjörinn með tæpt 53% fylgi. Í nýársávarpi sínu 1. janúar 2016 tilkynnti Ólafur að hann myndi ekki verða í framboði í forsetakosningum það ár.[3]
Ólafur gegndi stöðu lektors í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands á árunum 1970 til 1973 og stöðu prófessors árin 1973 – 1993.
Forseti Íslands
breytaÓlafur er fyrsti forsetinn í sögu Íslands til þess að neita að skrifa undir lög frá Alþingi, svonefnt fjölmiðlafrumvarp. 26. grein stjórnarskrárinnar segir að þá skuli lögin vera sett í þjóðaratkvæðargreiðslu, til þess kom ekki í þetta skiptið þar sem ríkisstjórnin ákvað að draga hið umdeilda frumvarp til baka áður en til þess kæmi. Skiptar skoðanir eru á meðal fræðimanna um raunverulega merkingu 26. greinarinnar, það er hvort að forseti geti yfirleitt beitt henni sökum hefða fyrrum forseta, greinin sjálf er hins vegar afdráttarlaus.
Ólafur hefur verið umdeildur í starfi sínu sem forseti, en gagnrýni á störf hans jókst mjög eftir hrun íslensku bankanna; ekki síst vegna hlutar hans í útrás íslenskra fyrirtækja og sambands hans við íslenska auðmenn[4].
Synjun forseta á staðfestingu frumvarps til laga um fjölmiðla 2004
breytaÓlafur Ragnar Grímsson neitaði að staðfesta frumvarp að lögum um fjölmiðla (fjölmiðlafrumvarpið) árið 2004. Ákvörðunin var umdeild, en Alþingi tók í framhaldi frumvarpið af dagskrá, þ.a. ekki þótti nauðsynlegt að leggja það fyrir dóm þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu, eins og gera bar skv. stjórnarskrá Íslands.
Þátttaka forseta Íslands í Þróunarráði Indlands 2007
breytaÓlafur Ragnar Grímsson hlaut nokkra gagnrýni fyrir að taka þátt í Þróunarráði Indlands, án þess að ráðfæra sig við forsætis- og utanríkisráðherra. Þingforseti, Halldór Blöndal gagnrýndi forsetann opinberlega fyrir ákvörðunina.
Hjartaaðgerð í október 2008
breytaDagana 6. til 7. október 2008 fór forsetinn í hjartaþræðingu á Landspítala. Tilkynning um hjartaaðgerð forsetans barst ekki þjóðinni fyrr en nokkrum dögum síðar, en samkvæmt stjórnarskrá fara handhafar forsetavalds með völd forseta í forföllum hans.
Fundur forseta með sendiherrum Norðurlandanna og Rússlands í nóvember 2008
breytaÍ nóvember 2008 var haldinn fundur með ráðherrum Norðurlandanna og Rússlands, en þá var Ólafur mjög harðorður og skv. minnisblaði, sem lekið var til fjölmiðla átt forseti m.a. að hafa ávítað norðurlandaþjóðirnar fyrir að hafa ekki komið Íslandi til hjálpar í fjármálakreppunni. Þann 16. febrúar 2009 ritaði Eiður Guðnason sendiherra harðorða grein þar sem hann taldi forsetann hafa sagt rangt frá ummmælum sínum í boðinu.
Geir Haarde biðst lausnar, 26. janúar 2009
breytaGeir Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, baðst lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt á Bessastöðum 26. janúar 2009. Forseti veitti Geir lausn frá embætti og veitti síðar Jóhönnu Sigurðardóttur heimild til að leiða minnihlutastjórn Samfylkingar og vinstri Grænna fram að kosningum 26. apríl sama ár.
Forseti hafnar undirskrift umdeildra Icesave-laga 2010
breytaÓlafur Ragnar Grímsson neitaði að staðfesta umdeild Icesave-lög 5. janúar 2010, eftir að hafa áður tekið sér umhugsunarfrest frá gamlársdag 2009. Forseti sagðist með neituninni vilja vísa lögunum til þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ólafur er eini forseti lýðveldisins sem neitað hefur að skrifa undir lög, fyrst árið 2004 og síðar 2010.
Forseti vísar Icesave-lögum til þjóðaratkvæðagreiðslu 2011
breytaÓlafur Ragnar Grímsson hafnaði staðfestingu nýrra laga um Icesave og vísaði þeim til þjóðaratkvæðis 20. febrúar 2011.
Framboð til forseta Íslands 2012
breytaÍ nýársávarpi 2012 lét Ólafur að því liggja að hann hygðist snúa til annarra starfa og mundi því ekki bjóða sig fram til forseta Íslands 2012. Hann neitaði síðar að skýra mál sitt frekar, þegar hann var inntur eftir því. Efnt var til undirskriftasöfnunar til að skora á Ólaf að bjóða sig fram og skrifuðu rúmlega 30.000 undir áskorunina. Á blaðamannafundi í lok febrúar sagðist Ólafur vera að íhuga framboð og mundi gefa svar eftir eina til tvær vikur. Hann tilkynnti loks framboð sitt til forsetaembættis 4. mars 2012. Í forsetakosningunum 2012 náði Ólafur endurkjöri með tæp 53% greiddra atkvæða. Hann var settur inn í embættið þann 1. ágúst og hófst þar með er 5. kjörtímabil hans sem forseti Íslands. Enginn fyrri forseta hefur setið lengur en 4 kjörtímabil.
Nýársávarp 2016
breytaÍ nýársávarpi 1. janúar 2016 lýsti Ólafur því yfir að hann hyggðst ekki sækja um endurkjör. En hann lagði áherslu á að halda áfram að vinna áfram að samvinnu á Norðurslóðum, með háskólunum, ungu fólki í vísindum, rannsóknum og fræðastarfi og styrkja þekkingartengslin milli Íslands og annarra landa.[5]
Framboð til forseta 2016
breytaÓlafur Ragnar ákvað að bjóða sig enn einu sinni fram í forsetakosningunum 2016. Ólafur sagði fjöldi fólks hafa beðið sig um endurskoða ákvörðun sína um að bjóða sig ekki fram aftur. Þeir hefðu þá vísað til þeirra atburða sem gerðust í tengslum við afsögn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Ekki væri hægt að horfa framhjá því að sambúð þings og þjóðar væri þrungin spennu.[6] Síðar dró hann framboðið tilbaka í ljósi þess að komnir væru sterkir frambjóðendur.
Ummæli í fjölmiðlum
breytaViðtal við forseta Íslands í Silfri Egils 18. febrúar 2007
breytaÍ viðtali í Silfri Egils, 18. febrúar 2007, sagði Ólafur Ragnar Grímsson að forsetinn heyri ekki undir neitt ráðuneyti og nær væri að tala um að ráðuneytin heyri undir forseta ef menn vildu fara út í orðhengilshátt. Þessum ummælum var slegið upp í Morgunblaðinu daginn eftir. Björg Thorarensen, lagaprófessor segir að í stjórnsýslulegu tilliti fari forsætisráðuneytið með alla umsýslu sem varðar forsetaembættið og megi því segja að forsætisráðuneytið fari með málefni forsetans.
Viðtal við forseta í Kastljósi RÚV haustið 2008
breytaÍ viðtali í Kastljósi RÚV í kjölfar bankahrunsins á Íslandi viðurkenndi Ólafur Ragnar hafa farið of geyst í að mæra útrás íslensku bankanna.
Tilvísanir
breyta- ↑ „Forsetar Framtíðarinnar frá 1883“. Menntaskólinn í Reykjavík.
- ↑ Ólafur Ragnar Grímsson Geymt 18 janúar 2012 í Wayback Machine Forseti.is
- ↑ „Ólafur Ragnar gefur ekki kost á sér“. Ríkisútvarpið [á vefnum]. 01-01-2016, [skoðað 02-01-2016].
- ↑ Myndband - larahanna.blog.is
- ↑ Afdráttarlaus yfirlýsing Skoðað 5. janúar 2016.
- ↑ Ólafur ragnar býður sig fram aftur Rúv. Skoðað, 18. apríl, 2016.
Tenglar
breyta
Fyrirrennari: Vigdís Finnbogadóttir |
|
Eftirmaður: Guðni Th. Jóhannesson | |||
Fyrirrennari: Jón Baldvin Hannibalsson |
|
Eftirmaður: Friðrik Sophusson | |||
Fyrirrennari: Pálmi R. Pálmason |
|
Eftirmaður: Gunnar Sigurðsson |