Fara í innihald

Düsseldorf

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Düsseldorfs
Skjaldarmerki Düsseldorfs
Staðsetning Düsseldorfs
SambandslandNorðurrín-Vestfalía
Stjórnarfar
 • BorgarstjóriThomas Geisel
Flatarmál
 • Samtals217,41 km2
Hæð yfir sjávarmáli
38 m
Mannfjöldi
 • Samtalsca 620.000 (2.018)
 • Þéttleiki2.754/km2
Vefsíðawww.duesseldorf.de

Düsseldorf (á íslensku stundum nefnd Þusslaþorp) er höfuðborg þýska sambandslandsins Norðurrín-Vestfalíu. Hún er næststærsta borgin í sambandslandinu með 620 þúsund íbúa (2018) og liggur í Ruhr-héraðinu. Hún er hluti af Rín-Ruhr-stórborgarsvæðinu.

Düsseldorf að næturlagi.

Düsseldorf er hafnarborg við Rín, gegnt borginni Neuss, og liggur við suðvesturenda Ruhr-héraðsins. Næstu borgir (utan Neuss) eru Duisburg til norðurs (20 km), Mönchengladbach til vesturs (20 km), Wuppertal til austurs (25 km) og Köln til suðurs (25 km).

Skjaldarmerki

[breyta | breyta frumkóða]

Skjaldarmerki Düsseldorfs er rautt ljón sem snýr til vinstri og heldur á bláu akkeri. Ljónið skartar blárri kórónu. Allt þetta er á hvítum grunni. Upprunalegt merki borgarinnar er akkerið og vísar til siglinga á Rín. Ljónið er tákn hertoganna frá Bergisch Land. Þessi tvö tákn (ljónið og akkerið) sameinuðust á miðri 18. öld en núverandi merki var hannað og samþykkt 1938.

Borgin dregur nafn sitt af ánni Dussel, sem rennur í Rínarfljót í borginni. Dussel hét upphaflega Tussale, sem merkir árniður. Upphaflega hét borgin Dusseldorp, sem merkir Bærinn við ána Dussel. [1]

Söguágrip

[breyta | breyta frumkóða]
Orrustan við Worringen

1135 kemur þorpið Dusseldorp fyrst við skjöl sem Friðrik Barbarossa keisari sendi frá sér. Það er þá eitt af mörgum þorpum á svæðinu. Düsseldorf var þá lítill fiskibær við Rín. 1189 varð bærinn hluti af greifadæminu Berg (Bergisch Land). 1288 varð stórorrustan við Worringen. Þar leiddu saman hesta sína erkibiskupinn frá Köln og fylgismenn hans gegn Adolf V af Berg og fylgismenn hans. Erkibiskup reyndi að þenja út yfirráð sín, en beið ósigur í orrustunni. Adolf hélt greifadæmi sínu og veitti Düsseldorf borgarréttindi eftir sigurinn. Borgin dafnaði hins vegar hægt, sökum mikillar samkeppni við nálægar borgir, eins og Neuss og Köln. 1380 varð Vilhjálmur greifi af Berg að fursta og flutti aðsetur sitt í kjölfarið til Düsseldorf.

Düsseldorf 1647. Mynd eftir Matthäus Merian

1614 hertók Spánverjinn og hershöfðinginn Ambrosio Spinola, sem var á vegum keisarans, borgina, en þá hafði greifalínan dáið út. Eftir það varð hún hluti af greifadæminu Pfalz-Neuburg. Í spænska erfðastríðinu 1702 eyddu Frakkar nágrannaborgina Kaiserswerth, en létu Düsseldorf í friði. Frakkar hertóku borgina 1757 í 7 ára stríðinu. Frakkar voru aftur á ferð 1795 og héldu þeir borginni til 1801. Þeir mynduðu stórhertogadæmið Berg með Düsseldorf að höfuðborg. Stórhertogar voru fyrst Joachim Murat hershöfðingi, síðan Napoleon sjálfur og loks bróðursonur Napoleons, Napoleon Louis Bonaparte. Þetta stórhertogadæmi hélst við til falls Napoleons 1814. Þá voru prússar búnir að hertaka hertogadæmið. Ári seinna ákvarðaði Vínarfundinn að borgin og hertogadæmið skyldu tilheyra Prússlandi. Við það missti Düsseldorf status sinn sem höfuðborg sem hún hafði haft í rúm 400 ár.

Nýrri tímar

[breyta | breyta frumkóða]
Í Düsseldorf er veðurfar svo milt að þar vaxa pálmatré í dag

Düsseldorf byrjaði ekki að vaxa og dafna fyrr en með iðnbyltingunni. Sérlega mikilvæg var Rínarhöfnin, sem lögð var 1831, og járnbrautartengingin sem komið var á 1838. 1850 voru fyrstu stáliðjurnar starfræktar. Borgin þandist úr og fór íbúafjöldi borgarinnar yfir 100 þús 1884. Næstu 20 árin tvölfaldaðist þessi tala og rúmlega það. Düsseldorf var þá orðin að leiðandi iðnaðarborg í prússneska ríkinu. Í heimstyrjöldinni fyrri var stór hluti iðnaðarins breytt í vopnaframleiðslu. Eftir tap Þjóðverja í stríðinu kom til uppreisnar í borginni. Fram á mitt ár 1919 var ástandið líkt borgarastyrjöld. Borgarráð flúði, en margir framámenn borgarinnar voru teknir í gíslingu. Bylting þessi átti að leiða til umbóta eins og gert var í Rússlandi 1917. Ástandið batnaði ekki fyrr en 1921 er Frakkar og Belgar hertóku borgina. Tveimur árum seinna hertóku Frakkar nánast allt Ruhr-héraðið sem nokkurs konar stríðsskaðabætur. Var þá Düsseldorf í höndum Frakka til 1925. Í heimstyrjöldinni síðari varð borgin fyrir gríðarlegum loftárásum, enda mikilvæg iðnaðarborg. Helmingur allra húsa eyðilagðist og 90% allra húsa hlutu skemmdir. Allar brýr yfir Rín eyðilögðust. Frá og með 28. febrúar 1945 lét bandarískur landher sprengjum rigna yfir borgina í sjö heilar vikur áður en hann hertók borgina nánast bardagalaust. Þá hafði íbúafjöldinn minnkað um helming. Bandaríkjamenn skiluðu borginni til Breta, enda var hún á breska hernámssvæðinu. Við endurreisn borgarinnar varð hún aftur að iðnaðarborg, en einnig að miðstöð þjónustu og verslunar. Hún varð að einni stærstu borg Þýskalands. Íbúafjöldinn náði hámarki 1962 er hann fór í rúm 700 þús. Síðan þá hefur hann dalað talsvert. 1965 var háskólinn í borginni stofnaður. Borgin dafnaði svo vel að hún er í dag ein af tveimur stórborgum Þýskalands sem er skuldlaus (hin er Dresden).

Íþróttir

[breyta | breyta frumkóða]
Fortuna Düsseldorf leikur heimaleiki sína í Esprit Arena

Félagið DEG Metro Stars er eitt allra besta íshokkílið Þýskalands. Það er margfaldur þýskur meistari og 2006 komst félagið í úrslitaleik í HM félagsliða. Á heimavelli þeirra fara gjarnan fram alþjóðlegir leikir. Hann hefur einnig verið vettvangur HM í íshokkí

Kvennaliðið DJK Agon 08 Düsseldorf er besta félagslið kvenna í körfubolta í Þýskalandi. Á 9. áratugnum var liðið níu sinnum meistari í röð, og hefur orðið meistari nokkrum sinnum síðar. Félagið komst tvisvar í úrslitaleik í HM félagsliða (1983 og 1986).

Elsta ruðningslið Þýskalands er Düsseldorfer Panther, sem er sexfaldur þýskur meistari, en það er oftar en nokkurt annað ruðningslið.

Aðalknattspyrnufélag borgarinnar er Fortuna Düsseldorf, sem varð þýskur meistari 1933 og bikarmeistari 1979 og 1980. Atli Eðvaldsson og Pétur Ormslev léku báðir með félaginu 1981-85. Á seinni árum leikur liðið í neðri deildum. Heimavöllur félagsins, Rheinstadion, er gjarnan notaður í landsleiki.

Eitt árangursríkasta íþróttalið borgarinnar er borðtennisfélagið Borussia Düsseldorf. Það er margaldur þýskur meistari, bikarmeistari og Evrópumeistari. Á HM félagsliða hefur félagið best náð 3. sæti. Árlega fer alþjóðlegt Evrópumót unglinga í borðtennis (Kids Open) fram í Düsseldorf. Mót þetta hefur verið haldið í 20 ár í Düsseldorf og eru þátttakendur um 1.500.

Árlega fer fram Maraþonhlaup í Düsseldorf í maímánuði. Á hlaupadegi er þá öll borgin í uppnámi, bæði út af viðburðinum og vegna umferðar. Hlaupið hefur farið fram árlega síðan 2003.

Viðburðir

[breyta | breyta frumkóða]
Klaus Doldinger er upphafsmaður Jazz-Rally í Düsseldorf. Hann leikur sjálfur á saxófón.
  • Mesta hátíð borgarinnar er Karneval. Hér er um tímabil að ræða sem hefst í nóvember og nær hámarki í febrúar. Fólk fer í skrúðföt, fer í skrúðgöngur og heldur hátíðir, bæði innanhúss og utanhúss. Karneval í Düsseldorf hefur verið haldin síðan 1833.
  • Japansdagurinn (Japan-Tag) er þýsk-japönsk hátíð sem haldin er árlega ýmist í maí eða júní. Hér er um útihátíð að ræða þar sem japönsk menning er í fyrirrúmi. Tónleikar fara fram með japönskum listamönnum, haldnar eru sýningar í japönskum íþróttagreinum (bardagagreinum), boðið er upp á japanskan mat og drykk og fleira. Hátíðinni lýkur með dansi og flugeldasýningu. Hátíð þessi hefur verið haldin síðan 2002 og er stærsta sinnar tegundar í heimi.
  • Düsseldorfer Jazz-Rally er stærsta jazz-tónlistarhátíð Þýskalands. Hún stendur yfir í júní ár hvert og eru haldnir um 100 tónleikar meðan hún stendur. Tónleikarnir fara fram utandyra á ýmsum stöðum í miðborginni og er því hægt að labba á milli eins og hugurinn stendur til (af því er nafnið Rally dregið). Nokkrir af stærri tónleikunum eru á sérstöðum og þarf að greiða aðgang fyrir.
  • Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva var haldin í Düsseldorf árið 2011 og sigurvegarinn þar var Aserbaídsjan en flytjendurnir þeirra voru Ell og Nikki með lagið Running Scared. 43 lönd tóku þátt í keppninni og varð hún fantagóð! Setning Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva var Feel your heart beat!

Frægustu börn borgarinnar

[breyta | breyta frumkóða]

Byggingar og kennileiti

[breyta | breyta frumkóða]
Lambertuskirkjan er með skakkan turn
Blokkahverfi eftir Frank Gehry
  • Benrath-kastalinn var reistur 1755-73 af kjörfurstanum Karl Theodor von der Pfalz sem sumaraðsetur, en þá voru Frakkar herrarnir í borginni. Kastalinn skemmdist lítilsháttar í loftárásum seinna stríðsins og tóku viðgerðir langan tíma. Í dag er tvenn söfn í húsinu, garðasafn og náttúrusafn. Það er einnig notað fyrir móttökur þjóðhöfðingja, t.d. hafa Mikhaíl Gorbatsjev og Elísabet II verið þar. Kastalinn er friðlýstur og búið er að sækja um að hann verði settur á heimsminjaskrá UNESCO.
  • Lambertuskirkjan er sennilega elsta nústandandi bygging borgarinnar. Hún var reist á 12. öld og vígð 1159. Hún var helguð heilögum Lambertusi sem var drepinn í Jülich árið 705. Í þá daga voru jarðneskar leifar af heilögum Apollinaris varðveittar í kirkjunni og er hann síðan þá verndardýrlingur borgarinnar. Siðaskiptin fóru aldrei fram í Düsseldorf og því hefur hún ætíð verið kaþólsk. 1815 brann turninn og var því endurreistur. En viðurinn bognaði og snerist og því er turninn örlítið skakkur. Eftir að kirkjan hafði skemmst í loftárásum seinna stríðsins og byrjað var að gera við hana, barst ósk frá íbúum borgarinnar um að endurgera turnþakið þannig að það sé eins skakkt og áður hafði verið og var það gert.
  • Gehry-Bauten er heiti á nýtískulegu blokkahverfi við Rínarbakka sem kanadíski arkítektinn Frank Gehry teiknaði. Aðalsmerki hans er að láta húsin virka skökk og snúin.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Geographische Namen in Deutschland. Duden. 1993. Bls. 83.

Fyrirmynd greinarinnar var „Düsseldorf“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt apríl 2010.