Lemúría
Lemúría eða Limúría er ímyndað sokkið meginland í Indlandshafi eða Kyrrahafi sem kemur fyrir í vísindakenningum frá 19. öld og síðan í ýmsu samhengi. Kenningin er ekki lengur talin eiga sér neina stoð í veruleikanum. Sumir tamílskir rithöfundar hafa tengt Lemúríu við hið goðsögulega meginland Kumari Kandam.
Áður en landrekskenningin varð almennt viðurkennd reyndu menn að skýra útbreiðslu tegunda lífvera með ýmsum hætti, þar á meðal með landbrúm sem síðan hefðu sokkið í sæ. Hugmyndin um Lemúríu kom fyrst fram í grein líflandfræðingsins Philip Sclater frá 1864 þar sem hann velti fyrir sér af hverju steingervingar lemúra fyndust á Madagaskar og Indlandi, en ekki í Mið-Austurlöndum eða Afríku. Schlater skýrði þetta með því að einhvern tíma hefðu þessi lönd tengst en tengingin sokkið í sæ.
Þegar landrekskenning Alfred Wegener kom fram í upphafi 20. aldar breyttust forsendur kenninga um útbreiðslu tegunda milli meginlandanna. Þó að til séu dæmi um sokkin meginlönd er engin merki um slíkt að finna á þeim slóðum þar sem Lemúría átti að hafa verið. Lemúría hvarf því alveg úr vísindalegri umræðu.
Hugmyndin um Lemúríu og fleiri týnd meginlönd fékk framhaldslíf innan guðspeki þar sem Helena Blavatsky setti fram hugmyndina um fimm frumkynþætti og þrjú týnd meginlönd (Hýperbóreu, Lemúríu og Atlantis) í bókinni The Secret Doctrine árið 1888.