Loðvík 10.
Loðvík 10. Frakkakonungur (4. október 1289 – 5. júní 1316), kallaður Loðvík þrætugjarni eða Loðvík þrjóski var konungur Navarra frá 1305 og Frakklands frá 1314 til dauðadags.
Loðvík fæddist í París og var elsti sonur Filippusar 4. Frakkakonungs og Jóhönnu 1. af Navarra. Hann erfði krúnu Navarra við lát móður sinnar 2. apríl 1305. Þann 21. september sama ár, rétt fyrir sextán ára afmæli sitt, giftist hann Margréti af Búrgund, sem var ári yngri. Þau eignuðust eina dóttur, Jóhönnu. Yngri bræður hans, Filippus og Karl, giftust frænkum Margrétar, systrunum Jóhönnu og Blönku af Búrgund.
Snemma árs 1314 flæktust þau öll inn í Tour de Nesle-málið svonefnda, þar sem Margrét og Blanka voru sakaðar um að hafa fallið í hórdóm með tveimur aðalsmönnum og Jóhanna um að hafa vitað af framhjáhaldinu eða jafnvel tekið þátt í því. Margrét og Blanka voru fundnar sekar og varpað í dýflissu en Jóhanna sýknuð. Loðvík reyndi að fá hjónaband sitt ógilt, enda mun það ekki hafa verið hamingjusamt, en það var þó ekki gert.
Filippus faðir hans dó sama ár og varð Loðvík þá konungur. Hann var þó ekki krýndur fyrr en 24. ágúst árið eftir. Tíu dögum áður hafði Margrét dáið í dýflissunni og er ekki talið ólíklegt að Loðvík hafi látið myrða hana því að hann gekk að eiga Klementíu af Ungverjalandi fimm dögum eftir lát Margrétar.
Ríkisstjórnartíð Loðvíks var ekki löng og einkenndist af átökum við aðalinn, enda réðist hann í aðgerðir sem ætlað var að auka tekjur krúnunnar. Árið 1315 lýsti hann því yfir að bændaánauð skyldi ljúka en bændur áttu þó að borga fyrir að losna úr ánauð. Filippus faðir hans hafði rekið gyðinga úr landi en Loðvík leyfði þeim búsetu í Frakklandi að nýju með ákveðnum skilyrðum. Þeir áttu að bera auðkennisarmbönd og máttu aðeins búa á ákveðnum stöðum. Loðvík átti líka í stríðsátökum í Flæmingjalandi.
Loðvík var áhugasamur um Jeu de paume, sem var forveri tennisíþróttarinnar. Í júníbyrjun 1316 lék konungurinn langan og erfiðan leik og drakk síðan mikið af kældu víni. Þetta varð honum að aldurtila skömmu síðar. Klementía drottning var þá barnshafandi og var beðið átekta þar til hún varð léttari en Filippus bróðir Loðvíks var útnefndur ríkisstjóri á meðan. Jóhanna, dóttir Loðvíks og Margrétar, var að vísu á lífi en vafi lék á hvort konur ættu yfir höfuð erfðarétt til krúnunnar samkvæmt gildandi lögum í Frakklandi auk þess sem faðerni prinsessunnar var ekki talið öruggt vegna framhjáhalds móðurinnar.
Barnið fæddist 15. nóvember og var drengur sem hlaut nafnið Jóhann 1. Hann lifði þó ekki nema fimm daga og þá tókst Filippusi að fá erfðarétt sinn viðurkenndan, bæði til krúnunnar í Frakklandi og Navarra, þar sem hann ríkti undir nafninu Filippus 2. Jóhanna dóttir Loðvíks hefði raunar átt að erfa krúnu Navarra því þar áttu konur ótvíræðan erfðarétt en þó var gengið framhjá henni. Hún varð samt drottning þar 1328 að báðum föðurbræðrum sínum látnum og 250 árum seinna erfðu afkomendur hennar frönsku krúnuna.
Heimild
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Louis X of France“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 13. júní 2010.
Fyrirrennari: Filippus 4. |
|
Eftirmaður: Jóhann 1. |