Pólarnir
Pólarnir (Suðurpóll eða Suðurpólarnir[1]) er heiti sem í daglegu tali var haft um bráðabirgðahúsnæði sem Reykjavíkurbær lét reisa syðst við Laufásveg á árum fyrri heimsstyrjaldarinnar til að bæta úr brýnni húsnæðisþörf bæjarbúa.
Saga
[breyta | breyta frumkóða]Mikil húsnæðisekla var í Reykjavík á árum fyrri heimsstyrjaldar svo jaðraði við neyðarástand. Íbúum fjölgaði hratt en nýbyggingar voru litlar sem engar, ekki hvað síst vegna stríðsins. Árið 1916 var ákveðið að reisa bráðabirgðahúsnæði fyrir bágstaddar fjölskyldur og var því fundinn staður syðst við Laufásveg sem þá náði mun lengra en síðar varð. Næstu misserin voru reistar þar tæplega fimmtíu íbúðir af miklum vanefnum, til dæmis voru þær ekki með rennandi vatni.
Þótt Pólarnir hafi upphaflega verið hugsaðir sem bráðabirgðahúsnæði, gekk hægt að rífa þá og var búið í flestum húsanna vel fram á sjötta áratuginn.
Sigurður A. Magnússon rithöfundur ólst upp í Pólunum og dró upp mynd af lífinu þar í endurminningarbók sinni Undir kalstjörnu.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Þess má geta að þegar reist var bráðabirgðahúsnæði handa fátæku fólki suður undir Öskjuhlíð árið 1917 þótti við hæfí að kalla það Suðurpólinn til mótvægis við Norðurpólinn á Hverfisgötu [nr. 125].Lesbók Morgunblaðsins, 1989, 25. feb. bls. 5
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- Pólarnir í Reykjavík Geymt 24 júní 2016 í Wayback Machine
- Minjasafn Reykjavíkur Skýrsla nr. 161 Vatnsmýri - Seljamýri - Öskjuhlíð Geymt 22 mars 2017 í Wayback Machine