Fara í innihald

Vatnshrútur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Skýringarmynd af vatnshrút:
1. Inntak. Vatnið kemur inn í vatnshrútinn um víða pípu
2. Vatnið gusast út undan rauða klakknum
3. Úttak. Vatnið þrýstist inn í leiðslu
4. Yfirfallsventill. Vatnið gusast út en aðeins stutta stund því vatnskrafturinn drífur klakkinn upp og þar með lokuna neðan á honum. Vatnið lokar þannig fyrir eigið rennsli og myndar vatnshamar. Vatnið myndar högg og ryðst gegnum lokann nr. 5 og upp í nr. 3. þá fellur þrýstingurinn svo rauði klakkurinn dettur niður og vatn gusast upp aftur.
5. Einstreymisloki
6. Þrýstikútur, að mestur fullur af lofti, virkar sem höggdeyfir
Myndband af vatnshrút við tjörn á Jótlandi.

Vatnshrútur er vatnsdæla sem getur dælt vatni í talsverða hæð án rafmagns eða annarrar utanaðkomandi orku. Orkan til að knýja dæluna kemur úr fallkrafti vatns. Aðeins litlum hluta vatnsins er dælt upp en mestur hlutinnn fer framhjá dælunni og sér um að knýja hana. Vatnshrútur vinnur best þar sem landslag er mishæðótt eða hallandi en hann virkar ekki á láréttu landi.

Til þess að geta unnið þarf vatnshrútur að fá vatn gegnum aðrennslispípu, sem er 5 - 10 m löng og liggur að honum með 2 m fallhæð. Þegar vatnið rennur inn í hrútinn, byrjar hann að stanga og berja vatnið frá sér, í gegnum pípu sem liggur þangað upp sem vatnið á að fara. Meirihlutinn, eða 9/10 af vatninu sem að kemur, rennur út um hrútinn og fer burt en um 1/10 hluti fer upp í gegnum stigpípuna og getur náð alt að 14 metra hæð, eða 7 sinnum hærra en fallhæð vatnsins í hrútinn.

Til að vatnshrútur geti dælt vatni þarf fallhæð frá vatnsuppsprettunni að ná niður til vatnshrútsins en það þarf tiltölulega lítið fall frá lind að vatnshrúti til að hann geti lyft vatninu hátt yfir lindina. Ef til dæmis fallhæð frá lind að vatnshrúti er 1 metri þá getur hann lyft vatninu frá sér um allt að 40 metra en afköstin væru þá ekki nema um 12 lítrum á sólarhring. En ef fallhæðin frá lind er 3 metrar getur hann dælt upp 65 lítrum á sólarhring og ef lyftihæðin er 10 metrar getur hann dælt 280 lítrum. Vatnshrútur var víða í notkun í sveitum fyrir daga rafvæðingar. Hann getur nýst þar sem ekki er völ á rafmagni og þarf lítið viðhald því það eru aðeins lokarnir sem hreyfast. Joseph Michel Montgolfier gangsetti fyrsta vatnshrútinn í Frakklandi árið 1796. Vatnshrútur var settur upp á Hvanneyri árið 1935 og var þá settur niður við læk sem rann gegnum túnið. Þannig var hægt að fá 3 m halla á 30 m vegalengd. Stigpípa vatnshrútsins lá svo upp í vatnsþró við íbúðarhúsið og var stighæð hennar 12 m. Hrúturinn reyndist ágætlega.

  • Loftur Rögnvaldsson, Vatnsvirki,Ársrit Ræktunarfélags Norðurlands (01.01.1917), Blaðsíða 87
  • Sigurður Grétar Guðmundsson,Vatnshrútur er undratæki,Morgunblaðið,21. júlí 2008
  • Ásgeir L. Jónsson, Vatnshrútur, Búfræðingurinn, 1. tölublað (01.01.1936)
  • Kölski bar vatn í hripum en við veljum frekar vatnshrúta Morgunblaðið (28.07.2008)
  • „Hvar finn ég teikningu af vatnshrút?“. Vísindavefurinn.
  • Vatnshrútur frá 1925 (mynd í sarpur.is)