Academia.eduAcademia.edu

Múrinn, okt. 2001

Greinar af vefritinu Múrinn sem kom út 2000-2007, ýmist á sviði menningar, fréttaskýringa eða stjórnmálaats.

Hafnfirskir unglingsórar 30.10.2001 Það þarf ekki bjartsýnismann til að spá því að kvikmyndin Mávahlátur muni sópa að sér Edduverðlaunum í ár þar sem hún er nánast ein um hituna. Það er kannski ekki laust við að verðlaunin séu hálfpartinn hlægileg. Engin verðlaun eru veitt fyrir leik á sviði hér á landi en þó eru nógu mörg leikrit sýnd hér ár hvert til að gera það kleift. En nóg um það. Mávahlátur mun fá sínar Eddur og það er í sjálfu sér ekki kjánalegra en að þátturinn Tantra sé að keppa um verðlaun sem sjónvarpsþáttur. Mávahlátur er vönduð mynd. Hafnarfjörður eftirstríðsáranna er endurgerður á trúverðugan hátt og skapað samfélag sem hægt er að lifa sig inn í. Mávahlátur líður áfram á geðþekkan hátt og áhorfendum þarf ekki að leiðast. Á hinn bóginn nær myndin aldrei verulegri dýpt, hún skautar fallega á yfirborðinu og missir allmörg tækifæri til þess að fara á dýpið. Nú er best að játa það hreint og klárt að bíórýnir hefur ekki lesið Mávahlátur (en hinar bækur Kristínar Marju hefur hann lesið) og ekki séð leikritið. Augljóslega hefur leikstjóri myndarinnar þar allgóðan efnivið í höndunum, áhugaverða fléttu og skýrar persónur. Það sem vantar er kannski að myndin koma á óvart. Stef hennar eru flest gamalkunnug og þó að hún haldi athyglinni vel hrífur hún aldrei — og þó er í henni efni sem hægt væri að búa til heillandi mynd úr. Áhugaverðasta sagan í myndinni er sagan af stúlkunni Öggu sem býr til eigin óraheim í kringum frænku sína, Freyju. Þessu er lýst í myndinni en þar sem myndavélin er hafin yfir allt og horfir á að ofan er erfitt að samsama sig Öggu. Órar hennar verða aldrei nógu trúverðugir. Í myndinni eru þó mögnuð atriði í hrauninu, vel gerð og fáguð. Þau hefðu þó verið enn sterkari ef myndavélin hefði fylgt Öggu betur og leyft okkur að sjá heiminn með hennar augum. Myndin nær því aldrei fullum styrk í kringum Öggu og er það ekki síst skaði þar sem Ugla Egilsdóttir fer afar vel með hlutverkið og nær að varpa skugga á aðra leikara. Það er ekki svo lítið afrek í ljósi þess að leikhópurinn er einvalalið. Það er tvímælalaust Agga sem áhorfendur heillast af og þess vegna hefði mátt dýpka þessa sögu. Hvað er t.d. að gerast þegar hún kastar upp? Í hvaða baráttu er hún þegar ofsóknarkenndin nær tökum á henni og hún fyllir lögreglumanninn af lygum, svo mjög að hann trúir henni ekki heldur þegar hún segir satt? Saman við þessa sögu Öggu fléttast saga Freyju frænku hennar sem er mun klisjukenndari og þar eru flest minnin alkunn. Margrét Vilhjálmsdóttir er sem betur fer hófstillt í túlkun sinni en nær þó aldrei að skapa samúð með Freyju. Það er of erfitt að skilja gerðir Freyju og hún verður hálfgerð frenja. Mávahláturslíkingin fellur til að mynda alveg dauð niður og er það miður. Eins fer Edda Björg Eyjólfsdóttir yfir strikið í túlkun sinni á Dódó og verður eins og skrípamynd. Betur standa þær Kristbjörg Kjeld, Guðlaug Elísabet Ólafsdóttir og Bára Lyngdal Magnúsdóttir sig. Sigurveig Jónsdóttir hefur lítið að gera en nær þó að vera „presens“ á sviðinu. Allar þessar persónur eru þó haganlega gerðar og sæmilega trúverðugar. Öðru máli gegnir um yfirstéttarliðið. Þar er hver persónan öðrum hallærislegri, sýslumannsfjölskyldan, læknirinn og læknisekkjan og presturinn eru skrípapersónur og hið sama því miður um helsta karlhlutverkið í myndinni. Ekki veit ég hvers vegna þýski leikarinn Heino Ferch var látinn leika í myndinni en hann er þar því miður allan tímann eins og álfur úr hól. Þar að auki er talsetningin heldur misheppnuð og raunar hjákátlegt að myndavélin beinist stöðugt að höndum hans, baki og öllu öðru en andlitinu þegar hann er að tala. Sem betur fer hefur íslenskum kvikmyndum farið fram frá því á áttunda áratugnum og svona lagað gengur hreinlega ekki lengur. Þetta dregur myndina niður á hálfgert amatörplan. Hilmir Snær getur ekki annað en verið sjarmerandi í litlu hlutverki lögregluþjóns. Í þeirri persónu er þó ekki margt úr að moða fyrir þennan prýðisleikara. Afbragðsleikararnir Arnar Jónsson og Anna Kristín Arngrímsdóttir eiga þó enn meira bágt í sínum aukahlutverkum. Versta atriðið er þó rónaatriðið — þegar Freyja býður rónum bæjarins til stofu að drekka úr sparistellinu. Úr því hefði kannski mátt gera eitthvað en það er bara hallærislegt og virkar eins og léleg eftirherma af hinu eftirminnilega atriði á Hótel Sögu úr Englum alheimsins. Það er raunar dæmigert fyrir það hvernig myndin tekur almennt á stéttaandstæðum. Allt er það of klisjukennt og hefðbundið. Mávahlátur er í hópi betri íslenskra mynda. Hún er vönduð að flestu leyti en hana skortir því miður dýpt. Ugla Egilsdóttir er stjarna myndarinnar og það er fyrst og fremst hennar vegna sem ástæða er til að hvetja fólk til að sjá hana. Leikhópurinn er almennt traustur, einkum konurnar. Leikmyndin er sannfærandi og flest gert vel hvað tækni varðar, annað en talsetning Þjóðverjans. En í þetta handrit vantaði meiri brodd. Þar stendur hnífurinn í kúnni. áj Mongo Beti er látinn 26.10.2001 Nýverið andaðist hinn heimskunni rithöfundur frá Kamerún, Alexandre Biyidi-Awala, sem þekktari er undir höfundarnafni sínu, Mongo Beti. Hann er líklega einn kunnasti satíristi Afríku enda hóf hann feril sinn á skrifum um stjórnmál. Einkum beindi hann beittu háðsspjóti sínu að nýlendatímanum og skáldsögur hans um þetta efni eru taldar meðal þeirra fremstu sem Afríkumenn settu saman á 20. öld. Mongo Beti var einnig orðinn að pólitísku tákni þegar hann lést enda róttækur fram í rauðan dauðann. Hann fæddist í Akometan nálægt Mbalmayo, rétt sunnan við Yaounde, 30. júní 1932. Á þessum tíma var Yaounde höfuðborg þess hluta Kamerún sem Frakkar stjórnuðu í umboði Þjóðabandalagsins. Á 14. ári var hann rekinn úr skóla trúboða fyrir óhlýðni og vann um hríð á kakóplantekru fjölskyldunnar áður en hann sneri aftur til náms og varð bakkalár. Árið 1951 hélt hann til Frakklands og var við nám í Sorbonne um hríð. Sogaðist hann fljótt inn í hringiðu afrískra róttæklinga í París. Þar hóf hann að rita um stjónrmál og í kjölfar þess varð hann rithöfundur. Árið 1954 sendi hann frá sér fyrstu skáldsögu sína, Ville Cruelle, og var það undir höfundarnafninu Eza Boto. Árið 1956 kom svo á prent frægasta verk hans, Le Pauvre Christ De Bomba, en ýmsir telja það meistarastykki hans. Þá hafði hann tekið sér nafnið Mongo Beti. Þessi bók er gamansöm en hvöss ádeila á heimskupör og ruddaskap nýlenduherranna og katólsku kirkjunnar. Hlaut hún mikið lof gagnrýnenda og Mongo Beti varð stjarna útgáfuforlagsins Présence Africaine í París en þeir voru helsta forlag Afríkumanna. Fyrir næstu bók sína Mission Terminée (1957) hlaut hann verðlaun. Hún var í svipuðum anda og fátæki Kristurinn frá Bomba og einnig Le Roi Miracule (1958). Þessar þrjár bækur voru allar þýddar á ensku og fyrir þær öðlaðist Mongo Beti verðskuldaða frægð. Á þessum tíma var skammt í að Kamerún hlyti sjálfstæði en þá stóð yfir blóðug uppreisn vinstrisinnaðra skæruliða í Union des Peuples Camerounais (UPC) og mikilli hörku var beitt til að bæla hana niður. Beti var eftirlýstur í Kamerún vegna stuðnings við UPC og talinn stórhættulegur enda hvassasti penni landsins. Hann hélt sig því í Rouen og varð þar bókmenntakennari við Lycée Corneille og þar hélt hann sig í næstu þrjá áratugi. Á sjöunda áratugnum skrifaði hann næsta lítið. Árið 1971 sendi hann frá sér skáldsöguna Main Basse Sur Le Cameroun en margir telja að þar komi fram reiði hans yfir því að uppreisn UPC fór út um þúfur og seinasti leiðtogi hreyfingarinnar, Ernest Ouandie, var tekinn af lífi árið 1970. Í þessari bók kemur fram hörð gagnrýni á hina stjórnlyndu Kamerúnstjórn og vakti hún mikla athygli þar sem frönsk stjórnvöld bönnuðu hana og gerðu upptæka. Þá sendi hann frá sér tvær stjórnmálaskáldsögur enn, Remember Ruben og Perpetua Et l’Habitude De Malheur, sem báðar komu út árið 1974. Árið 1978 stofnuðu hann og kona hans Odile Tobner, sem einnig var bókmenntakennari, tímarit um bókmenntir með sterku pólitísku ívafi. Það kom út sex sinnum á ári og hét Peuples Noirs, Peuples Africains. Þar var hin nýja nýlendustefna Frakka í Afríku gagnrýnd harðlega. Áfram héldu bækurnar að streyma frá Beti, árið 1986 sendi hann frá sér Opið bréf til Kamerúna og árið 1993 kom hörð gagnrýni á Afríkupólitík Frakka, La France Contre l’Afrique. Snemma á 10. áratugnum tók lýðræðið að leika um Afríku eftir hrun kalda stríðsins. Þá sneri hann heim til Kamerún en stjórnin þar hafði slakað mjög á klónni. Þar stofnaði Beti bókabúð fyrir svarta og árið 1993 bauð hann sig fram til kosninga í heimabæ sínum, Mbalmayo. Beti er svo lýst að hann hafi verið lágvaxinn maður, með mikla persónutöfra, þrætugjarn en þó jafnan á vitsmunalegum forsendum. Fram í dauðann hélt hann áfram að senda frá sér skáldsögur (sú seinasta heitir Trop De Soleil Tue l’Amourog var gefin út árið 1999; hún er með sakamálaívafi og var hælt mjög fyrir knappan stíl) og stjórnmálarit sem urðu síður en svo sáttfúsari með árunum. Árið 1999 beindi hann spjótum sínum að hinu vestræna auðvaldi á bak við olíuleiðsluna milli Chad og Kamerún. Fram í andlátið var hann andófsmaður. áj Ártíðir merkismanna XXVIII: Bretland holdi klætt 19.10.2001 Í augum margra var hann Bretland sjálft, enda er nafn hans borið fram eins og nafn landsins. Samt var hann alþjóðlegt tónskáld og sennilega eitt nafnfrægasta tónskáld 20. aldar. Þann 4. desember næstkomandi mun þess verða minnst af tónelsku fólki um heim allan að 25 ár verða liðin frá andláti tónskáldsins Benjamin Britten. Britten fæddist í Lowestoft í Suffolk þann 22. nóvember 1913 og var því nýorðinn 63 ára þegar hann lést í Aldeburgh árið 1976. Hann hét fullu nafni Edward Benjamin. Britten er líklega eitt þekktasta og virtasta tónskáld Breta frá öldinni sem leið, umfram Elgar, Walton og Vaughan Williams. Hann var feykivinsæll frá æskuárum og verk hans hafa haldið áfram að seljast í miklu upplagi eftir andlát hans. Britten lærði hjá tónskáldinu Frank Bridge í æsku (1879-1941) en öfugt við flesta varð Bridge stöðugt byltingarsinnaðri í tónlist sinni. Þekktust er svíta hans, Sjórinn, sem Britten heyrði fyrst á ellefta ári og linnti ekki látum uns hann komst í nám til Bridge. Líklega var Bridge mesti áhrifavaldurinn í lifi Brittens og gerði hann m.a. að áköfum friðarsinna. Britten var eini nemandi hans á þessum tíma. Síðan nam Britten við konunglega músíkháskólann (Royal College of Music) og var raunar þegar orðinn tónskáld þá. Simon Rattle hefur nýlega grafið upp ýmis verk hans frá unglingsárum og flutt með hljómsveit sinni. Á háskólaárunum varð Britten frambærilegur píanóleikari og um tvítugt var hann orðinn allþekktur sem tónskáld í Englandi. Ungur hreifst hann af módernískum verkum tónskálda á borð við Wozzeck, Schönberg og Berg. Einnig varð hann fyrir áhrifum frá Stravinski og Mahler. Aldrei fetaði hann þó í fótspor neins af þessum mönnum heldur blönduðust áhrifin saman í sérstakan stíl. Árið 1935 hóf hann að vinna fyrir kvikmyndaverið GPO. Alls samdi hann tónlist við einar sextán kvikmyndir og þannig komst almenningur í snertingu við list hans. Í kvikmyndunum vann hann með ljóðskáldinu Wystan Auden og þeir sömdu einnig saman verk sem tileinkað var spænsku borgarastyrjöldinni. Hún var Víetnamstríð síns tíma og hafði feykileg áhrif á alla æskumenn. Mörg verka Brittens frá þessum árum eru nú talin sígild, m.a. píanókonsert hans. Árið 1939 fór Britten til Bandaríkjanna og árið 1941 sendi hann frá sér fyrstu óperu sína, Paul Bunyan, við libretto Audens sem einnig hafði farið vestur. Fyrir honum átti eftir að liggja að verða eitt mesta óperuskáld 20. aldar. Á þessum árum hafði Purcell mikil áhrif á hann. Mesta verk hans frá þessum árum var óperan Peter Grimes (1945) sem hefur þótt marka tímamót í sögu enskrar óperulistar. Aðalhlutverkið var sungið af söngvaranum Peter Pears (1910-1986) sem var lífsförunautur Brittens. Þeir höfðu kynnst strax árið 1937. Þeir félagar sneru aftur til Englands árið 1942 og var þó stríðið enn í fullum gangi og þótti heimferð þeirra hin mesta svaðilför. Britten er líklega þekktastur fyrir kynningarhljómsveitarverk sitt The Young Person’s Guide to the Orchestra sem hann samdi árið 1946 og íslenskir sjónvarpsáhorfendur þekkja sem kynningarstefið úr Kontrapúnkti. Það ár samdi hann óperuna The Rape of Lucretia sem nýlega var sýnd hér á landi og árið 1949 barnaóperuna Litla sótarann (eða: Búum til óperu) sem einnig hefur verið sýnd hérlendis. Þeir Pears settust að í smábæ í Suffolk árið 1948 og fljótlega fór Britten að semja tónlist fyrir tónlistarhátíðina í Aldeburgh, sem þeir Pears settu á stofn og voru lengi aðalsprauturnar í. Hún er enn haldin árlega. Það var nánast hvaða efni sem var sem Britten gat gert úr óperu. Hann samdi óperu við sálfræðilega sjóarasögu Melville um Billy Budd (1951), draugasögu Henry James The Turn of the Screw (1954), Jónsmessunæturdraum Shakespeare (1960) og Dauðann í Feneyjum eftir Thoams Mann (1973). Öll verkin tengjast einstaklingnum í samfélaginu og hvernig sakleysi er spillt. Í formi eru þau mismunandi, sum hálfgerð kammerverk en önnur sinfonísk. Auk óperanna er Britten ekki síst frægur fyrir fjöldamörg kórverk sín en raunar lágu flestar tegundir tónlistar létt fyrir honum. Á efri árum fór Britten þar að auki að gæla við tólftónaformið. Þá komst hann í kynni við rússnesk tónskáld og var tíður gestur þar eystra. Rétt fyrir andlátið hlaut Britten aðalstign. Á hann höfðu hlaðist orður og metorð allt lífið en hann var þó alltaf hálfgerður utangarðsmaður. Britten var af miðstétt og ýmsir landar hans hötuðust við hann fyrir að lifa einkalífi sínu eftir eigin höfði og lengi í tráss við lögin. Þó að eftir hann liggi trúarleg verk var hann öðrum þræði andsnúinn trúarbrögðum og þó að hann hafi samið margt aðgengilegt er tónlist hans iðulega myrk og sársaukafull. Líf Benjamin Britten var erfitt en sköpunargleðin mikil og bikar hans tæmdist aldrei. Hann var sískapandi allt lífið og mjög mörg verk hans teljast nú sígild. áj Woody leitar til upphafsins 16.10.2001 Mér þykir líklegt að Small Time Crooks sé 31. eða 32. kvikmyndin sem Woody Allen leikstýrir og skrifar handrit að. Eins og flestir kvikmyndagagnrýnendur hafa bent á líkist hún um margt sumum fyrstu myndum hans, t.d. Take the Money and Run og Bananas, sem stundum eru kallaðar „the early funny ones“. Hún er einföld að gerð og það vantar hinn sérstæða leik Woody Allen með frásagnarháttinn og sjónarhornið. Þá skortir Small Time Crooks þá djúpu alvöru og lífsangist sem hefur í auknum mæli blandast við gamansemina hjá Allen. Hún er ekki jafnfrumleg og þrautpæld og t.d. Husbands and Wives eða Deconstructing Harry. Small Time Crooks er hins vegar afar fyndin mynd og þó tapar hún nokkru á því að ýmsir bestu brandararnir hafa verið sýndir í auglýsingamyndinni. Hún snýst um misheppnaðan bankaræningja (Woody sjálfan) og langþreytta eiginkonu hans (Tracey Ullman). Hann er dálítið eins og Egon Olsen glæpaforingi Olsengengisins, stöðugt með nýjar ráðagerðir um léttfenginn auð sem allir sjá í hendi sér að muni misheppnast. Eins fer fyrir nýjustu ráðagerð smáglæpaforingjans sem gengur út á að kaupa pizzastað nálægt banka einum og grafa göng þar á milli. Göngin reynast auðvitað koma upp í vitlausu húsi auk þess sem foráttuheimsk frænka konunnar (Elaine May) hefur þegar sagt bæði lögregluþjóni og sjónvarpsfréttamönnum allt af létta. En nú bregður svo við að kökusala eiginkonunnar, sem átti að vera yfirvarp, slær svo rækilega í gegn að glæpagengið verður allt forríkt. Ekki á bankaráninu heldur á kökunum. Í sjálfu sér væri þetta næg flétta í eina mynd. Þetta er hins vegar tiltölulega hraður formáli að þessari mynd sem snýst um vanda þess og vegsemd að vera ríkur. Þar kemur alvaran inn í og kannski hefst hér hin heimspekilega saga myndarinnar. Hvernig á að bregðast við velgengninni? Sjálfsagt hefur hinn fóbíski Woody sem frægur er fyrir að skrópa á Óskarsverðlaunahátíðum og öðru þvíumlíku oft velt þessu fyrir sér. Úttekin verður samt ekki jafn djúp og mætti vænta af slíkum snillingi. Eiginlega nær Small Time Crooks ekki að skilja mikið eftir sig. Á hinn bóginn er hún í flokki fyndnari mynda Woody. Í henni eru allnokkrir brandarar sem fólk hlær upphátt að. Það á ekki síst við um upphaf hennar, meðan hið misheppnaða bankarán er í undirbúningi. Um miðbikið tekur alvaran við og þá er það eiginkonan sem er þungamiðja sögunnar. Undir lok myndarinnar fremja svo Woody og heimska frænkan May eitt kostulegasta skartgriparán allra tíma. Er það atriði bæði spennandi og fyndið. Elaine May brillerar í hlutverki May. Hún er þekktari sem leikstjóri og handritshöfundur (ber meðal annars ábyrgð á stórfloppinu Ishtar) en frammistaða hennar í þessari mynd mun halda nafni hennar á lofti líka. Þau Woody og Tracy er líka prýðilegustu plebbar og þarf það engum að koma á óvart. Hugh Grant er þarna einnig í litlu hlutverki. Ef marka má þessa mynd og Dagbók Bridget Jones bíður hans langur ferill í Hollywood sem skúrkur sem talar með enskum hreim. Allir aðdáendur Woody Allen ættu að fara á Small Time Crooks. Hún er lík gömlu góðu myndunum hans og sýnir og sannar að húmor hans er enn í góðu lagi. áj Ljúfir tónir og líflaust vatn 9.10.2001 Nýlega hefur menningarrýnir Múrsins sótt tvo merka listviðburði sem sýna breiddina í íslensku listalífi. Sinfóníuhljómsveit Íslands hélt tónleika á dögunum þar sem hún lék fiðlukonsert Tsjækovskís og 4. sinfóníu hans. Þetta eru mikil stórvirki og að mati margra bestu verk þessa rússneska tónsnillings. Það er ekki heiglum hent að leika einleik í fiðlukonsertinum en hin aðlaðandi japanska stúlka, Akiko Suwanai, stóð sig með miklum sóma. Var henni að vonum mjög fagnað og færð blóm af japanska sendiherranum. Enn betur þótti þó menningarrýni hljómsveitin standa sig í 4. sinfóníu Tsjækovskís. Hún sýndi og sannaði að hún er að engu síðri en sinfóníuhljómsveitir milljónaþjóða og flutningur hennar var verkinu fyllilega samboðinn. Var henni enda fagnað og allur viðburðurinn hinn besti. Saman fóru mikið listaverk og vandaður flutningur. Ástæða er til að hrósa hljómsveitastjóranum Romanul og hljómsveitinni allri. Ekki var jafn ánægjulegt að sjá leikritið Vatn lífsins á stóra sviði Þjóðleikhússins. Ástæðan var ekki sú að listamennirnir á sviðinu væru ekki að reyna sitt besta. Flestir gerðu það og leikstjórinn greinilega líka. En leikritið er því miður hreinasta hörmung. Það var inntakslítið og klisjukennt og fullkomlega fyrirsjáanlegt að öllu leyti. Sætir nokkurri furðu að slík þunnildi séu að fá verðlaun og sett upp fyrir milljónir. Aðalpersóna leikritsins er ungur maður sem snýr heim frá Ameríku með fulla vasa af nýjum hugmyndum og vill rafvæða kaupstaðinn í grennd við bæinn sem hann kemur frá og sveitina. Mætir hann andstöðu frá bæjarstjórninni sem er full af kolakaupmönnum. Síðan deyr móðir hans meðan hann er á fylleríi og kvennafari og hann leggst í rúmið og verður aumingi. Að lokum kemur í ljós að glæstur frami hans í Ameríku er misskilningur heldur hafði hann verið þar skottulæknir. Það eru kannski óvænt endalok en öllum er sama þegar hér er komið sögu, persónan er svo grunnfærin og illa mótuð. Ekki kemur fram af hverju hann snýr heim eða hvað honum gengur til að rafvæða sveitirnar. Í örvæntingarfullri tilraun til að „dýpka“ persónuna eru draumsenur í myndinni en þær bæta engu við. Stefáni Karli Stefánssyni er vorkunn að leika þetta og tekst ekki heldur að gera neitt úr persónunni. Aðrar persónur eru staðalmyndir og klisjur. Ágætir leikarar eins og Tinna Gunnlaugsdóttir og Þröstur Leó Gunnarsson fara ágætlega með skrípamyndir sem þau hafa oft leikið áður. Enn aðrir ná ekki einu sinni því. Fyrir utan rafmagnsmanninn eru í aðalhlutverki holgóma stúlka sem lifir í draumaheimi 1001 nætur og væflast um sviðið milli þess sem hún lætur sig dreyma um heldur óáhugavert ástarsamband við aðalpersónuna. Svo er búralegur bróðir sem ekki var settur til mennta og er með komplex yfir því. Ekkert varð neitt úr honum heldur. Fólkið í þorpinu smjaðrar fyrst fyrir hinni ungu hetju en yfirgefur hann svo eftir samsæri kolakaupmannanna. Allt er þetta frekar einlitt og ósannfærandi, fyrir utan að vera nánast eins og flétta í lélegum læknaróman — þannig að áhorfendur þurfa ekki að vera mjög vanir bókmenntum til að sjá allt fyrir frá upphafi til enda. Textinn er þar að auki hvorki vitsmunalegur né skemmtilegur og erfitt að gera annað en að leggjast til svefns. Formgerðin er svipuð og í Leiðarljósi (Guiding Light), endalausar klippimyndir. Eini munurinn er sá að Guiding Light er heldur skemmtilegra og leikararnir virðast að minnsta kosti hafa gaman af. Þar skilja menn að þeir eru staddir í miðri klisju en þetta leikrit reynir að vera einhver heimspeki, án þess að eiga nokkuð í það. Það er vandræðalegt að svona verk séu að vinna verðlaun hjá Þjóðleikhúsinu og áhorfendur hljóta að velta fyrir sér hvort eitthvað sé að í yfirstjórninni á þeim bænum, ekki aðeins í byggingarnefndinni. Leikstjóra og leikurum er hins vegar vorkunn. Ef þeir hefðu fengið Tsjækovskí í hendurnar hefðu þeir eflaust gert betur. áj Gervimennska Spielbergs 2.10.2001 Er Steven Spielberg vélmenni? Óneitanlega hvarflar þessi spurning að bíórýni sem er nýbúinn að sjá mynd hans, Gervigreind, í Háskólabíói. Hvers vegna? Jú, vegna þess að fæst vélmenni hafa tilfinningar og Gervigreind snýst um þroskasögu vélmennisins David sem er forritaður með tilfinningar og þær leiða hann í leit að — ja, hverju? Draumum sínum er líklega svar Spielbergs enda heitir fyrirtæki hans því uppskrúfaða nafni Dreamworks. Þetta er raunar býsna klisjukennt Hollywoodsvar en vélmenni eins og Spielberg hugsa ekki frumlega. Það er væntanlega eitt af því sem skilur þau frá mönnum þó að á það sé ekki minnst í bíómyndinni. Hvað tilfinningar varðar er Spielberg í heldur lakara sambandi við þær en véldrengurinn David. Hann virðist lítið skynbragð bera á tilfinningaflækjur. Lausn hans er einföld: Just add sugar. Vandinn er að of mikill sykur getur eyðilagt ágæta rétti og þannig fer fyrir Gervigreind. Væmnin er eitt af því sem ríður myndinni að fullu. Annað er heimspekileg grunnhyggni Spielbergs. Fáir kunna betur en hann að fara með hasar og spennu. En hann vill endilega hafa inntak líka og þar stendur hnífurinn í kúnni. Tilraunir hans til að ná dýpt sýna það eitt hversu grunnhygginn hann er. Það þriðja sem eyðileggur myndina er að hún er einfaldlega allt of löng. Og það tragíska er að u.þ.b. 20 mínútum fyrir endalokin (bíórýni fannst það lengri tími) nær sagan ágætum endi á hafsbotni og allt sem gerist eftir það er heldur til óþurftar og ama. Eflaust hefðu einhverjir viljað sögulok jafnvel ennþá fyrr. Nú er Spielberg ekki alls varnað, það myndu æstir aðdáendur Kjamma, Indiana Jones og Júragarðsins seint samþykkja. Í raun og sanni er hann meistari. Vandamálið er að hann þráir að vera djúpur — að vera raunverulegur maður, kynni sá andstyggilegi að segja — og er það ekki. Þetta var feillinn við Lista Schindlers sem missti fjölmörg góð tækifæri til dýptar og þróaðist út í að vera áróðursmynd fyrir Ísraelsríki. Enn verri var boðskapur þjóðrembumyndarinnar Björgun Ryans hermanns. Í báðum þessum myndum var þó margt vel gert, einkum hasarinn en einnig kann Spielberg ágætlega að leikstýra úrvalsleikurum. Það er fyrst og fremst handritið sem eitthvað vantar í. Svo að við teljum nú upp það sem vel er gert er það fyrst og fremst leikurinn. Haley Joel Osment leikur af krafti og sannfæringu og stendur sig með mikilli prýði; ekki vantar það. Leikur hans er mun betri en myndin. Jude Law fer skemmtilega með hlutverk vélmennis sem þráir einmitt ekki að vera maður heldur trúir á sjálfan sig sem vélmenni. Það hefði mátt gera mikla meira við þessa persónu og Law hefði mátt vera lengur á tjaldinu. „Móðir“ Davids er einnig góð persóna framanaf og það má hafa gaman af ýmsum vélmennunum. Annars gildir það sama hér og endranær, húmor virðist vera Spielberg lokuð bók (þó örlar fyrir honum í persónu Jude Law) og þar skilur á milli þeirra George Lucas. Það er greinilegt hvor átti fyndnu augnablikin í Indiana Jones-myndunum. Margar hugmyndir í myndinni eru stórgóðar. Það stefnir á tímabili í prýðilega allegóríu um samband foreldra og barna. Foreldrarnir forrita börnin til að elska sig en skilja þau svo eftir í skóginum með ofurleikföngin ein sér til stuðnings. Þá virðist myndin um skeið stefna í ádeilu á hvers kyns fasisma, þar sem haldnar eru opinberar „aftökur“ á heimilislausum vélmennum. En Spielberg missir bæði efnin úr höndum sér, svo upptekinn er hann við að fylgja efnisþræði sögunnar um Gosa (nema að það var húmor í Gosa). Nánast hver einasti áhorfandi áttar sig á líkindum þessara sagna en samt er hamrað á þeim aftur og aftur, svo að enginn missi af neinu. Finnur drengurinn að lokum þrjár bláar álfkonur og enginn þeirra virðist geta uppfyllt ósk hans — fyrr en auðvitað allt fellur í ljúfa löð í sykruðum sæluendi. Ekki þekkir bíórýnir söguna sem þetta er allt byggt á og þaðanafsíður er honum kunnugt um það hvað Stanley Kubrick ætlaði sér með þessa mynd. Hann grunar hins vegar að margt hefði orðið betra af hún hefði ekki lent í klónum á Spielberg, hasarmyndakónginum sem langar svo fjarska mikið að vera heimspekingur. Útkoman er hreinasta hörmung, langdregin leiðindi með losaralegum boðskap sem er talsvert gervilegri en vélmennin í myndinni. Haley litli Osment leikur eins og hetja í þessum ósköpum en ekki einu sinni hann fær bjargað þessu. Haltu þig við skrímslin, Spielberg! áj Hilmir snýr heim 26.10.2001 Á seinustu dögum hefur talsvert verið rætt um hinn fjörgamla og áður gleymda fyrrum konung Afganistans, Mohammed Zahir Shah. Jafnvel hefur því verið haldið fram að hann einn muni geta sameinað Afgani ef Talíbanar hrökklast frá völdum. En hver er þessi gamli konungur, hvað gerði hann þegar hann var við völd og hvernig minnast menn stjórnar hans? Mohammed Zahir Shah var í heimsókn í Ítalíu árið 1973, þegar honum var steypt af frænda sínum, Mohammed Daud Khan. Konungurinn hefur verið í Ítalíu síðan, býr í úthverfum Rómaborgar í stórvaxinni villu. Zahir fylgdist með úr fjarska þegar Daud var steypt af kommúnistum árið 1978, þegar Sovétríkin réðust inn í Afganistan árið 1979, þegar Rússar héldu heim, þegar stjórninni var steypt og loks þegar Talíbanar tóku Kabúl árið 1996. Nú er hann orðinn 87 ára, fæddur 15. október 1914. Ekki bjuggust því margir við að hann yrði litinn öðrum augum en aðrir forngripir, á borð við Otto von Habsburg, son seinasta Austurríkiskeisara. En hryðjuverkin í Bandaríkjunum 11. september breyttu stöðu mála. Nú er Zahir Shah skyndilega orðinn miðpunktur allrar athygli sem hugsanlegt höfuð nýrrar þjóðstjórnar sem mótvægi við Talíbana. 30. september tók konungurinn gamli á móti sendimönnum Norðurbandalagsins og bandarískum þingmönnum í Róm. Lýsti hann sig tilbúinn til að þjóna þjóð sinni á þessum erfiðu tímum. Talsmenn hans lögðu til að kallað yrði saman nýtt þing, Loya Jirga, sem allir ættbálkar Afganistan ættu þátt í. Loya Jirga er hefðbundið afganskt þing trúarleiðtoga og ættbálkahöfingja sem áður var kallað saman til að taka mikilvægustu ákvarðanir í landinu. Zahir Shah kallaði saman Loya Jirga árið 1941 og tók það þá ákvörðun að Afganistan skyldi verða hlutlaust í seinni heimsstyrjöldinni. Árið 1963 kallaði konungurinn saman Loya Jirga til að semja nýja stjórnarskrá og frændi hans Mohammed Daud kallaði saman slíkt þing árið 1977. Ríkisstjórn kommúnista í Kabúl reyndi að kalla saman Loya Jirga til að samþykkja veru Sovétmanna í landinu en það misheppnaðist. En er Zahir Shah rétti maðurinn til að leiða Afganistan? Um það eru vægast sagt skiptar skoðanir hjá þeim sem til þekkja. Mohammed Zahir Shah varð konungur 8. nóvember árið 1933, þegar faðir hans, Nadir Shah, var ráðinn af dögum af stúdent í Kabúl. Þá var Zahir Shah 19 ára og varð vitni af þessum hroðalega viðburði. Hann var eini eftirlifandi sonur hins myrta konungs og hafði menntast í Frakklandi. Síðan var hann við völd í 40 ár. En Willem Vogelsang, hollenskur afganistansérfræðingur við Háskólann í Leiden, hefur bent á að í raun réð konungurinn alls engu. Fyrstu tvo áratugina réðu frændur hans öllu, fyrst Mohammed Hashim Khan en síðan Shah Mahmud Ghazi Khan. Árið 1953 varð svo Mohammed Daud Khan, frændi konungsins, forsætisráðherra. Það var fyrst árið 1963 að konungi tókst að koma Daud frá völdum, eftir að oft hafði skorist í odda með þeim. Þá loksins fór konungurinn að hafa áhrif í Afganistan. Árið 1964 komst ný stjórnarskrá í gagnið og næsta áratuginn reyndi Zahir Shah að koma upp ríkisstjórn sem væri aðeins nær lýðræðisskipulaginu. Frændum konungs var bannað að gegna opinberum embættum og var þessu ekki síst beint gegn Muhammad Daud. En eins og Vogelsang bendir á féllst konungurinn aldrei á að leyfa stjórnmálaflokka. Á þessum árum jukust átök í landinu og engar sterkar stjórnarstofnanir urðu til. Óstöðugleiki fór vaxandi í landinu. Vogelsang bendir á að á þessum árum hafa unga fólkið ýmist orðið æ vinstrisinnaðra eða æ hægrisinnaðra. Til urðu sovéskir og maóískir kommúnistaflokkar og íslamskir hægriflokkar á hinum vængnum. Hinar einlægu umbætur konungs voru margar misheppnaðar, einkum til sveita og Pastúnar nálægt Pakistan fóru að krefjast sjálfstæðis. Efnahag landsins fór smám saman hnignandi. Vogelsang segir því ekki rétt að gera hetju úr Zahir. Þvert á móti kenni margir Afganir Zahir konungi um að andstæður hafa verið svo skarpar í landinu eftir 1978. Arif Azizpour, annar sérfræðingur í málefnum Afganistan, telur þó Vogelsang of neikvæðan. Þrátt fyrir allt hafi stjórn konungsins verið betri en það sem á eftir kom og margir sakni hennar nú. Á þessu tíu ára skeiði hafi verið miklar vegaframkvæmdir, heilsugæsla hafi batnað og fyrsti háskóli landsins hafi tekið til starfa. Þá hafi landið náð að vera hlutlaust á þessum tíma og fá mikla aðstoð bæði frá Bandaríkjunum og Sovétríkjunum. Friðsamt var í landinu (og raunar sóttu vestrænir hippar mjög til Kabúl á þessum árum). Azizpour telur Zahir Shah hafa það með sér að vera Pastúni. Hann sé því líklegri en aðrir til að geta sótt fylgi í raðir stuðningsmanna Talíbana. Azizpour telur háan aldur konungs bara til góðs þar sem Afganir beri mikla virðingu fyrir öldungum. Zahir Shah var steypt í byltingu án blóðstúthellinga 17. júlí 1973 og var þar að verki frændinn Muhammad Daud sem Zahir hafði komið frá tíu árum áður. Daud lýsti landið lýðveldi og sjálfan sig forseta. Zahir streittist litið á móti og sagði af sér 24. ágúst 1973. Síðan stjórnaði Muhammad Daud með harðri hendi í fimm ár en var svo steypt í blóðugri uppreisn árið 1978 og hann myrtur. Þá tóku kommúnistar völdin en í sautján mánuði deildu þeir Taraki og Amin um völdin. Fyrst steypti Amin Taraki en síðan var Amin steypt í árslok 1979 og hinn nýi forseti, Sovétvinurinn Babrak Karmal, kallaði sovéska herinn til landsins til að tryggja stöðugleika. Það fór þó öðruvísi. Síðan þá hefur vont versnað og lauk að lokum með hinni illræmdu Talíbanastjórn sem fáa formælendur hefur átt í heiminum. Og nú eru Bandaríkjamenn teknir að láta sprengjum rigna yfir spítala í þessu fátæka og stríðshrjáða landi og eins og til að kóróna hina farsakenndu rás atburða er nú tekið að tala um að konungurinn snúi aftur. Það ætti þó að draga úr bjartsýni að helstu aðdáendur konungsins um þessar mundir eru bandarísk stjórnvöld sem á sínum tíma létu hann sitja í friði í Róm og studdu Talíbana með vopnum og verjum. áj Berlín er gjaldþrota, bleik og rauð 23.10.2001 Um helgina hlutu Kristilegir demókratar í Þýsklandi mesta skell í sögu sinni í borgarstjórnarkosningum í Berlín. Þeir fengu aðeins 23,7% atkvæða en í kosningunum árið 1999 fengu þeir um 41%. Slíkt fylgishrun á sér ekkert fordæmi í sögu flokksins. Jafnaðarmenn bættu hins vegar við sig sjö prósentustigum og fengu 29,7% fylgi. Þeir eru nú stærsti flokkurinn í Berlín og geta myndað meirihluta ásamt Frjálslyndum og Græningjum sem fengu nálægt 10% fylgi hvor. Samanlagt eiga þessir flokkar 73 menn í borgarstjórn af 141, Jafnaðarmenn þar af 44. Athygli vakti einnig fylgisaukning Sósíalista í PDS. Þeir höfðu áður 17,7% fylgi og þótti mikið. Í þessum kosningum hlutu þeir 22,6% og 33 menn í borgarstjórn en Kristilegir demókratar hafa aðeins 35. Í austurhluta borgarinnar fékk PDS 48% fylgi og er langstærsti flokkurinn í Austur-Berlín. Þegar úrslitin lágu fyrir lét leiðtogi þeirra, Gregor Gysi, svo um mælt að þessar kosningar hefðu breytt Berlín. Þó að Jafnaðarmenn geti stjórnað án PDS tilkynnti Klaus Wowereit borgarstjóri á kosninganóttina að nú þyrfti borgin stöðuga stjórn sem gæti enst í tvö ár. Margir hafa bent á að erfitt geti reynst að stjórna með Frjálslyndum og Græningjum þar sem þessir flokkar eiga lítt skap saman. Margir túlka því orð Wowereit svo að hann vilji í stjórn með PDS sem þegar eru þátttakendur í samsteypustjórn í Sachsen-Anhalt. Greinilegt er að PDS er smám saman að verða viðurkenndur vinstriflokkur, þrátt fyrir að vera reistur á grunni SED, stjórnarflokksins í Austur-Þýskalandi. Wowereit hefur aðeins verið borgarstjóri síðan í júní og setið við völd í skjóli PDS. Þá hrökklaðist stjórn Kristilegra demókrata frá völdum eftir ótrúleg spillingarmál. Wowereit er fyrsti stjórnmálamaðurinn sem er kosinn í leiðtogasæti á Vesturlöndum eftir að hafa viðurkennt samkynhneigð sína. Wowereit er þó alls ekki litríkur stjórnmálamaður. Gerhard Schröder kanslari var fljótur að lýsa yfir að kosningaúrslitin merktu sigur ríkisstjórnarinnar. Fáir taka undir þá sögutúlkun. Það voru fyrst og fremst Kristilegir demókratar sem töpuðu kosningunum. Það blés ekki byrlega fyrir þeim í upphafi kosningabaráttunnar eftir að þeir höfðu hrakist frá völdum við illan leik eftir langvarandi óstjórn og spillingu. Borgarstjóraefni þeirra tókst eigi síður að gera illt verra. Þegar Frank Steffel, 35 ára viðskiptajöfur, var valinn borgarstjóraefni flokksins þótti hann vera hálfgert núll. Nú er hann hins vegar orðinn að athlægi um allt Þýskaland. Fyrsta skref hans var að auglýsa um alla borg að hann væri kvæntur maður. Átti það að fæla kjósendur frá hommanum Wowereit. En borgarstjórinn lýsti því yfir að hann væri samkynhneigður og hvað með það? Berlínarbúar tóku því vel enda kunnir fyrir frjálslyndi. Síðan hafði Wowereit sig lítt í frammi og beið eftir mistökum Steffels. Hann þurfti ekki að bíða lengi. Steffel játaði fljótlega að honum þætti München viðfelldnari en Berlín. Þegar kastað var í hann eggjum á kosningafundi faldi hann sig bak við Edmund Stoiber, forsætisráðherra Bæjaralands. Á öðrum fundi heyrðist hann spyrja Stoiber: Talaði ég of lengi? Fáir gátu varist þeirri hugsun að Steffel væri peð í valdabaráttu Stoiber og Angelu Merkel, leiðtoga Kristilegra demókrata, en Stoiber er sagður svo önnum kafinn að grafa undan Merkel að Kristilegir megi varla vera að því að vera í stjórnarandstöðu. Nú töldu Kristilegir demókratar að vont gæti varla versnað. Þá komust í hámæli rasískar yfirlýsingar Steffels frá æskuárunum og Hitlersskegg voru teiknuð á myndir af Steffel um alla borg á einni nóttu. Svar Kristilegra var að snúa baráttunni upp í hræðsluáróður gegn kommúnistum. PDS harðneitaði þó að beygja sig í duftið. Þegar Steffel krafðist afsökunarbeiðni frá Gregor Gysi á 40 ára afmæli múrsins sagði Gysi að sektarkennd væri einkamál hvers og eins. Sem kunnugt er var Gysi verjandi andófsmanna í Austur-Þýskalandi og fáir forystumenn PDS voru í forystu þar. Kommúnistagrýlan misheppnaðist algjörlega hjá Kristilegum demókrötum. Kjósendur höfðu meiri áhuga á því hvernig stjórn þeirra hafði tekist að safna 3000 milljarða skuld á nokkrum árum. Eftir sameiningarveisluna miklu er Berlín í raun og veru gjaldþrota. Eftir kosningasigurinn bíður Wowereit því erfitt verkefni. Höfuðborg Þýskalands hefur hins vegar brotið blað í sögu blaðsins með því að kjósa yfirlýstan homma borgarstjóra. Og PDS hefur fest sig í sessi í þýskum stjórnmálum. Það er kaldhæðnislegt að líklega hafa sósíalísk viðhorf aldrei átt meira fylgi að fagna í raun meðal íbúa Austur-Berlínar þó að SED hafi unnið margan sigurinn í gervikosningum þar í landi. áj Sjálfshólsflokkurinn heldur vakningarsamkomu 16.10.2001 Hver sló atkvæðamet Kim Il Sung? Var Bin Laden á landsfundi Sjálfstæðisflokksins? Hver er eftirlætisstjórnmálamaður Drífu Hjartardóttur? Að mati sjónvarpsfréttamanna bíða landsmenn í ofvæni eftir svörum við þessum spurningum. Undanfarna daga hafa því sjónvarpsfréttir verið helgaðar þeim stórmerka viðburði sem kallast Landsfundur Sjálfstæðisflokksins. Ef marka má tóninn í sjónvarpsfréttum alla jafna gætu illar tungur haldið því fram að hinn mikli fréttaflutningur af þessari samkundu tengdist því að fréttamenn væru þarna allir hvort sem er. Hvað sem því líður kom sérstakur gestur í báða sjónvarpsfréttatímana og það var foringinn sjálfur með sitt 98% fylgi. Hvers vegna veit ég ekki því að ef menn kalla það fréttir ef eitthvað markvert gerist er varla hægt að telja þennan landsfund til stórtíðinda. Varla eru það tíðindi að Sjálfstæðismenn séu foringjahollir. Hvað gerðist annars á þessum fundi? Jú, borgarfulltrúi einn sem hefur leyft sér að hafa aðra skoðun en flokksforystan á umhverfismálum var kallaður hryðjuverkamaður og var því fagnað með lófataki. Þá veit maður hvar fólkið sem var fremst í eineltinu í barnaskóla er núna, kynnu þeir kaldhæðnu að hugsa. Fámennur hópur var með læti út af kvótanum og var kveðinn rækilega í kútinn. Einn maður sagði sig úr flokknum en það gerir ekki til því að foringinn sjálfur upplýsti í fréttatímanum að Sjálfstæðismönnum fjölgaði um þrjá til fjóra í hverri viku. Vonandi ætla þeir nýju félagar ekki að vera með neinar sérskoðanir. Þá eru þeir á röngum stað. Skjár einn sendi Egil sjálfan á svæðið til að spyrja fólk hvað skyldi gera við Ríkisútvarpið. Einkavæða það, sögðu glaðbeittir heimdellingar og offarðaðar frúr. Einn vildi ekki gera það og þá þráspurði Egill hann hvort hann væri svona gamaldags. Það var helst að Hannes Hólmsteinn brygði út af möntrunni og er vissulega öldin önnur þegar hann er orðinn helsti „moderat“ flokksins. En eftir því sem valdatíðin lengist eykst firringin og blessað fólkið í þessum flokki skortir nú allt jarðsamband. Þegar öll fyrirtækin streyma skælandi til ríkisins og heimta aðstoð og þegar enginn vill kaupa sjálfa mjólkurkúna Símann, hvað segja þá Sjálfstæðismenn? Jú, þeir kyrja sína möntru um einkavæðingu og eru stoltur af sínu hjarðeðli einstaklingsins. Ætli þessum flokki hafi ekki verið best lýst í einkaviðtali Egils við hina glaðbeittu Drífu Hjartardóttur. Eftir að Egill hafði látið formenn SUS og Ungra jafnaðarmanna hlaupa apríl í október og garga hvorn á annan í sjö mínútur var sá liður sjálfdauður og þá ákvað hann að endurvekja hina skemmtilegu Steglu. Drífa sagði því álit sitt á mönnum og málefnum á miðjum landsfundi. Og hvert er það? Hún mundi ekki eftir neinu vondu sem ríkisstjórnin hefði gert. Davíð Oddsson er eftirlætisstjórnmálamaður hennar. Hún gefur efnahagsstjórn ríkisstjórnarinnar einkunnina tíu. Versta ríkisstjórn allra tíma er sú seinasta sem Sjálfstæðisflokkurinn var ekki með í. Það er greinilegt að keppnin um gagnrýnislausasta stjórnmálamann allra tíma er hafin og Drífa ætlar svo sannarlega að vera með. En það má reikna með að aðrir Sjálfstæðismenn veiti henni harða keppni. Ekki þarf hins vegar að leita lengi að sjálfhælnustu stjórnmálasamtökum allra tíma. Eftir að hafa horft á Sjálfstæðismenn í sjónvarpinu í heila helgi getur maður aðeins gert tvennt: –samfagnað þessu káta, hundtrygga, heittrúaða og sjálfselska fólki –og vonað um leið að það uppgötvi aldrei hvað afganginum af þjóðinni finnst um þennan reglulega gamansöngleik þess. áj Óviðfelldin orð 9.10.2001 Davíð Oddssyni finnst hernaður tveggja auðugustu ríkja heims gegn einni fátækustu þjóð í heimi ekki óviðfelldinn. Honum finnst hins vegar óviðfelldið að gagnrýna tilgangslaust sýndarmennskuofbeldi gagnvart afgönskum almenningi sem gerir illt verra í baráttu gegn hryðjuverkum og færir okkur kannski ekki einu sinni skrefi nær í að handtaka Osama Bin Laden. Honum finnst það sérstaklega óviðfelldið í ljósi hinnar miklu samstöðu um málið hér á landi. Það sem Davíð Oddsson kallar mikla samstöðu er að helsti aðdáandi hans, Össur Skarphéðinsson, skuli vera jafnsammála honum um nauðsyn þessara ofbeldisverka og hann er sammála honum um nauðsyn þess að lækka skatta á fyrirtæki. Davíð Oddsson hefur engar áhyggjur af því að samkvæmt könnun Gallup eru aðeins 6% Íslendinga sammála þeim Össuri um að hernaður hafi verið nauðsynlegur en 90% Íslendinga var sammála Steingrími J. Sigfússyni um að það ætti að ekki að hefja ótínda glæpamenn á stall og drepa óbreytta Afgani í hefndarskyni í stað þess að leita að þeim sem glæpinn frömdu. Ekki frekar en að það hefði verið rétt á sínum tíma að gera loftárásir á Paraguay, Argentínu og Brasílíu, þar sem kónar á borð við Mengele fengu að búa óáreittir áratugum saman þó að þeir hefðu sannanlega fleiri mannslíf á samviskunni en þau sem því miður glötuðust í hinum ógeðslegu hryðjuverkum í Bandaríkjunum. Nei, Davíð Oddssyni nægir aðdáun Össurar í þessu máli. Enn sem fyrr er lítill munur á Össuri og Skarphéðni, eins og konan sagði. Eftir nokkur ár munu allir nema treggáfuðustu Heimdellingar viðurkenna að loftárásirnar sem nú standa yfir eru flugeldasýning. Þær eru skrautsýning á hernaðarmætti Bandaríkjanna og taglhnýtinga þeirra og hafa þann eina tilgang að sýna yfirburðina. Eftir er að handsama Osama Bin Laden og það verður ekki gert með loftárásum. Meiraðsegja Rumsfeld viðurkennir það og engin skynsamleg rök hafa heyrst fyrir því að þessar loftárásirnar hafa nokkurn tilgang í því. Rök íslenskra hernaðarsinna eru þau að bandaríski herinn hljóti að hafa vit á því sem hann er að gera. Tilgangslausar loftárásir af þessu tagi eru ekkert annað en hryðjuverk. Þær má auðvitað kalla stríð, alveg eins og til eru þeir sem kölluðu hryðjuverkin í Bandaríkjunum stríð. Þær má líka réttlæta endalaust, alveg eins og til eru þeir sem geta réttlætt hryðjuverkin í Bandaríkjunum. Það finnast varla þau ofbeldisverk sem einhver er ekki tilbúinn að réttlæta. Og hryðjuverkamennirnir vestra töldu eflaust að þeir væru að gera hernaðaraðgerð gegn mikilvægu skotmarki en ekki að myrða saklaust fólk. Fáir eru jafn duglegir að gengisfella orð og hernaðarhyggjumenn enda þrífast þeir á lygum. Nú hljóta menn að velta því fyrir sér hvort Davíð Oddssyni hafi fundist fjöldamorð Bandaríkjastjórnar í Víetnam óviðfelldin. Muna menn eftir afstöðu hans til þeirra? Fannst Davíð Oddssyni óviðfelldið að sleppa af heilsufarsástæðum manni sem bar ábyrgð á þúsundum morða, nauðgana og pyntinga í Chile? Og hvaða vægi hefur líf barns í Írak miðað við líf starfsmanns í Pentagon? Hvað finnst mannasiðameistaranum Davíð Oddssyni um þá ómótmælanlegu staðreynd að viðskiptabann Sameinuðu þjóðanna - sem hann er sérstakur talsmaður fyrir - hefur valdið venjulegu fólki í Írak ómældum þjáningum og leitt í gröfina nær milljón írösk börn á meðan Saddam Hussein hefur fitnað eins og púkinn á fjósbitanum? Ætli Davíð finnist það óviðfelldið? áj Hver er mesti hægrimaðurinn? 5.10.2001 Viðbrögð Samfylkingarmanna við hugmyndum ríkisstjórnarinnar um skattalækkanir á fyrirtæki sýna það skýrt hversu hlægilegt er að þessi flokkur skuli kalla sig „höfuðandstæðing Sjálfstæðisflokksins“ í íslenskum stjórnmálum. Það má raunar vel vera að í Samfylkingunni séu margir sem er uppsigað við Davíð Oddsson. En hvaða máli skiptir það kjósendur? Þeir hljóta að gera kröfur til þess að eignast málefnalega valkosti við Sjálfstæðisflokkinn og greinilegt er að það er Samfylkingin ekki. Á Vefrit ungra Jafnaðarmanna skrifar Ágúst Ágústsson: „Skattalækkanir sem ríkisstjórnin kynnti í gær eru góðar fréttir þótt ýmislegt bendir til að Samfylkingin hefði gengið enn lengra í þeim hefði hún verið við völd.“ Samfylkingin er semsagt núna orðin flokkur fyrirtækjaeigendanna og ætlar að ganga lengra í þeim efnum en Sjálfstæðisflokkurinn. Það er greinilegt að þar á bæ finnst mönnum Sjálfstæðisflokkurinn alls ekki hafa starfað af nógu miklum krafti fyrir hina efnameiri í samfélaginu. Nú er það auðvitað slæmt fyrir fyrirtæki að þurfa að borga tekjuskatt. Hver vildi ekki minnkja hjá sér útgjöld af þessu tagi? En tekjuskattur fyrirtækja hefur þó verið lægri en einstaklinga og það verður ekki séð að þau hafi verið mjög hrjáð af honum. Vandi fyrirtækja núna stafar varla af of miklum opinberum gjöldum. Hann stafar af erfiðu árferði í heiminum og í mörgum tilvikum af slælegri stjórnun, innistæðulausri ofurbjartsýni, gegndarlausri þenslu og offjárfestingum og launaskriði umfram það sem raunverulegt markaðsástand leyfði. En í íslensku efnahagslífi er ekkert stjórnendum fyrirtækja að kenna, allt hinu opinbera. Og ríkisstjórnin skellir svo allri skuldinni á aðra líka. Ætli þetta batni ekki allt þegar Bölmóður spámáður sjálfur, Þjóðhagsstofnun, verður lögð niður fyrir að hafa spáð öðruvísi en hinn mikli leiðtogi þjóðarinnar? En ungir jafnaðarmenn eru jafnsannfærðir um það og ríkisstjórnin að fjárstyrkir til fyrirtækja séu allra meina bót og Ágúst skrifar af alvöruþunga: „Kjósendur mega ekki gleyma því að Sjálfstæðisflokkurinn á ekki einkarétt á skattalækkunum.“ Nei, ætli það sé ekki fátt í stefnu Sjálfstæðisflokksins sem má ekki líka finna núorðið hjá Samfylkingunni, flokknum sem ætlar að sigra Davíð Oddsson með því að breyta sjálfum sér í hann. Síðan tekur Ágúst að grátbiðja atvinnurekendur um að vera ekki „fyrirfram ákveðnir að vera á móti jafnaðarmannaflokkum eins og Samfylkingunni að þeir geti ekki þegið góðar tillögur einungis vegna þess að þær koma frá vinstri flokki.“ Og hann bætir við „ En vinstri flokkur í dag er ekki það sama og vinstri flokkur fyrir 5 árum“. Og ekki er hægt að mótmæla slíkri speki. Ef marka má skrif Ágústs er sá „vinstri flokkur“ sem hann telur Samfylkinguna vera álíka vinstrisinnaður og flokkurinn Venstre í Danmörku sem hefur þar slegið öll met Íhaldsins í frjálshyggju. Ágúst og félagar hafa kannski þegar sótt námskeið hjá Uffe Ellemann Jensen um hvernig eigi að vera alvöru vinstrimenn? Síðan koma hinar hefðbundnu skammir í garð Vinstri grænna sem „sýna algjört ábyrgðarleysi í efnahagsmálum“ og eru „ætíð eins og út úr kú þegar kemur að ríkisfjármálum“. Það þarf víst ekki að efast um að unga jafnaðarmenn langar ekki í vinstri stjórn. Ætli draumurinn sé ekki heldur að fá að vera aftur með Davíð í að byggja upp velferðarkerfið eins og Sighvatur gerði svo eftirminnilega hér um árið? Og af hverju ættu kjósendur að kjósa þennan umventa vinstriflokk? Jú, vegna þess að hann ætlar að lækka skatta á fyrirtæki enn meira en sjálft Íhaldið. Kjósendur munu fá að fylgjast spenntir með deilum Sjálfstæðisflokksins við „höfuðandstæðing“ sinn um hver sé mesti hægrimaðurinn fyrir næstu kosningar. Þeir sem trúa á stefnu Davíðs munu geta kosið Samfylkinguna næst í trausti þess að innst inni sé hún alveg eins og Davíð. Þeir sem vilja eitthvað annað en Davíð vita hins vegar hvað þeir eiga ekki að kjósa. áj Vinir bílsins eru vinir eigin buddu 30.10.2001 Samtökin "Vinir bílsins" eru óðum að verða að athlægi út um allt. Af hverju? Kannski vegna þess að þau byggja á þeirri firru að bílar séu hraktir og smáðir á Íslandi og bíleigendur ofsóttur minnihlutahópur. Þó hefur komið hér fram í fréttum að Íslendingar eiga heimsmet í bílaeign per kjaft og tóku það af Kananum í fyrra. Íslendingar eiga líka heimsmet í lélegum almenningssamgöngum. Núna er búið að leggja af vöruflutninga með skipum innanlands og þjóðvegirnir eru því fullir af stórhættulegum trukkum sem geysast um á methraða og vei þeim sem fyrir verður. Það er ekki gaman að lenda í árekstri við slíkan bíl, síst af öllu ef hann er hlaðinn eldfimum efnum. Íslendingar láta sér ekki segjast þó að óhugnanleg slys verði í jarðgöngum í öðrum löndum. Samt er vöruflutningabílum leyft að fara um Hvalfjarðargöngin og helsta ráð þeirra sem fara inn í göngin er að krossa sig og vona að ekkert gerist því að það virðist allt á huldu hvernig menn ætli að bregðast við ef slys yrði í göngunum. Og úr því að minnst var á almenningssamgöngur er nú búið að leggja af Akraborgina og enn er þar vegið að almenningssamgöngum á Íslandi. Á þeim tímapúnkti koma "Vinir bílsins" fram og vilja rétta hlut einkabílsins á Íslandi. Rétta hlut??? Gjörvallt samgöngukerfi Íslands er miðað við einkabíla. Lestir eru hér bannorð. Bannað er að efla strætisvagna vegna þess að allt þarf að vera fyrirtæki og bera sig. Þess vegna þarf að búa til hér strætisvagnakerfi þar sem ætlast er til að menn fari úr Vogahverfinu í Fossvoginn með því að taka fyrst tvistinn niður í bæ og svo sjöuna yfir í Fossvog. Þá er fljótlegra að ganga, held ég. Ganga? Hvað segi ég? Auðvitað gengur enginn í Reykjavík enda ekki til þess ætlast. Göngustígar eru búnir til fyrir bíleigendur að rölta um á sunnudögum en ekki fyrir fólk til að komast leiðar sínar. Þess vegna er fátítt að göngustígar liggi stystu leiðina heldur fara þeir í sveiga og hlykki og svo má sjá troðninga í grasinu við hlið þeirra, þar sem fólk gengur í raun. Göngustígar í Reykjavík eru fyrst og fremst meðfram menguðum bílagötum. Og þó að allt borgarkerfið sé hannað fyrir bíla finnst minnihluta Íhaldsins aldrei nóg að gert. Þeirra æðsta markmið í lífinu er að lækka stöðugjöld fyrir bílana, svo að nógu ólíft verði að ganga í miðbænum. Já, það þarf að rétta hlut einkabílanna. "Vinir bílsins" hafa svo sannarlega fundið ofsóttan minnihlutahóp að berjast fyrir. 85% Reykvíkinga fer til vinnu á einkabíl á morgnana. Flestir eru einir í bílum sínum og telja það mannréttindi að fá að spúa út koltvísýringi að vild. Svona mikið hallar á einkabíla á Íslandi. Eflaust væri hægt að byggja hér eitt eða tvö álver til viðbótar með því að efla almenningssamgöngur og halda sig þó innan mengunarkvótans frá Bonn (þ.e. ef ríkisstjórnin hefði áhuga á því að vera með í því átaki), svo mikinn hlut eiga einkabílarnir í losun gróðurhúsalofttegunda hérlendis. Ekki nokkur maður hér á Íslandi berst fyrir því að einkabílum fækki. Stöku hjáróma raddir heyrast um að kannski sé gott að efla strætó. En almennt eru Íslendingar svo harðir bílafasistar að hver fjölskylda þarf að eiga 3-4 bíla. Bílalánin gera unglinga gjaldþrota á 18. og 19. ári. Slit á vegum kostar skattborgarana fúlgur fjár á hverju ári og flestallir eru til í að steypa sér í skuldir vegna þess að bíllinn er svo brýn nauðsyn að bara einhverjir pervertar geta án hans verið. Á Íslandi eru allir vinir bílsins. Hinir svokölluðu "Vinir bílsins" eru fyrst og fremst vinir eigin buddu sem hafa það að markmiði að selja íslenskum fjölskyldum fjölskyldubíl númer fjögur eða fimm og kreista svo úr þeim tryggingar og fleira smálegt. Það er ekkert athugavert við það að menn vilji græða. En að halda að íslenskur almenningur sé svo heimskur að gleypa það að hér þurfi að "rétta hlut bílsins", það er eiginlega of ósvífið. áj Fjölbreytnisamfélagið: Hugvekja 28.10.2001 Erindi haldið á Landsfundi VG, 20. október 2001. Fyrir þúsund árum skar Þorgeir goði á Ljósavatni úr um að Íslendingar skyldu hafa eina trú og einn sið. Fram að þeim tíma höfðu Íslendingar verið fjölgyðistrúar. Vegur fjölgyðistrúarinnar hefur farið svo minnkandi seinustu þúsöld að við könnumst varla lengur við fyrirbærið. Og það er erfitt fyrir þá sem hafa alist upp í eingyðistrú að skilja þá sem trúa á mörg goðmögn. Trúarbragðastríð samtímans eru milli þeirra sem aðhyllast einn guð, hvort sem þeir eru gyðingar, kristnir eða íslamstrúar. Það hefur á hinn bóginn aldrei verið vandi fyrir fjölgyðistrúaða að bæta við einum guði eða svo. Ef við ætlum að byggja framtíð okkar á fjölbreytni er ég hræddur um að hugarfarið þurfi að breytast talsvert. Það er ekki einvörðungu svo að hér á Íslandi hafi aðeins þrifist einn siður og ein trú heldur hefur hér aðeins búið ein þjóð öldum saman og allir skyldir öllum, hér hafa allir talað sama mál — nokkurn veginn mállýskulaust. Þegar ég ólst upp var hér aðeins eitt útvarp og eitt sjónvarp. Í skólunum fengu allir sömu menntun — og þó ekki því að sumir höfðu betri kennara en aðrir, og svo fer varla nema brot af menntun hvers fram í skóla, þó að það gleymist stundum í kröfugerðinni til skólakerfisins. Við vorum einsleitur hópur — og þó ekki því að fólk er sem betur fer aldrei eins. En þrátt fyrir alla fyrirvara var Ísland einsleitt samfélag og það hafði bæði kosti og galla. Menn skildu hver annan og könnuðust við skírskotanir hver í máli annars. Við þekktum öll samhengið og kannski var helsta andstæðan í samfélaginu milli þeirra eldri og yngri því að eins og nú var unga fólkið stöðugt að stefna í átt til glötunar og mesta furða að nokkur slyppi óskaddaður úr allri spillingunni. Gjáin milli höfuðborgarbúa og landsbyggðarbúa var eflaust til en síðan hefur hún farið stöðugt breikkandi. Og það var byrjað að tala um „konur“ eins og þær hefðu einn sameiginlegan vilja og enn áttu þó eftir að bætast við bækurnar um karlana frá Mars og konurnar frá Venus. En orðið nýbúi var ekki til og það var óhjákvæmilegt að það væri starað á fólk af öðrum kynþáttum. Síðan þá hefur auðvitað samfélagið breyst, eins og stöðugt er klifað á því að fólk er alltaf upptekið af nýjustu breytingunum og man ekkert eftir iðnbyltingunni og svoleiðis smámunum. Samfélagið hefur orðið dálítið bandarískara eins og önnur vestræn samfélög; ekki þó eins og Bandaríkin heldur á þann útvatnaða hátt sem einkennir alla heimsmenningu. Og á tuttugu árum höfum við sem vorum alin upp í stolti yfir lýðveldinu unga og litum á Kristján Eldjárn sem goðumlíka veru orðið kynslóðin sem skyrpir úr sér orðinu „þjóðernishyggja“ og horfir tortryggin á þá sem stunda íslensk fræði. Nú er hugtakið „fjölmenningarsamfélag“ mikið notað. Um það eru haldin málþing og allt rétthugsandi upplýst fólk fagnar því. Hver einasti stjórnmálamaður sem Egill Helgason spyr útúr á sunnudögum á Skjá einum segist afar hlynntur því að fá hingað innflytjendur. Raunar er jákvæðnin svo algjör að hinir kaldhæðnu fara að efast um hvort einlægnin sé jafn mikil og eindrægnin, einkum þar sem hin spurningin sem allir svara játandi, er hvort samkynhneigðir eigi að fá að ættleiða börn. Sjálfsagt hefur meirihluti alþingismanna svarað því játandi í sjónvarpinu hjá Agli — og þó er það ennþá bannað því að það er eitt að þykjast víðsýnn og annað að vera það. En er Ísland fjölmenningarsamfélag? Nei, aldeilis ekki. Það er ekki nóg að hingað flytji útlendingar. Það nægir ekki heldur að erlent menntafólk fari að fá hér önnur störf en við dyravörslu eða skúringar. Það er ekki einu sinni nóg að íslenskir óróaseggir hætti að ráðast gegn ferðamönnum sem líta nýbúalega út á 17. júní. Ísland verður ekki fjölmenningarsamfélag við þetta. Það gerist fyrst þegar útlendingum er hleypt inn í landið til þess að auðga menninguna. Það er ekki nóg að þeir séu hér og læri íslensku, eins auðvelt og það nú er að kenna fólki íslensku án þess að hafa lært mál þess — og þetta er ekki aðeins tæknilegt atriði heldur kjarni málsins því að jafnvel þó að takist að kenna úsbekanum íslensku eigum við eftir að læra mál hans. Því að Ísland verður ekki fjölmenningarsamfélag þó að útlendingar séu hér og læri ekki málið og allir tali saman á bjagaðri ensku. Fjölmenningarsamfélagið krefst þess að við lærum eitthvað af þeim sem hingað koma og ekki aðeins matargerðina. Og enn ber heldur lítið á áhuga Íslendinga á að kynnast menningu Tælendinga, Filippseyinga, Serba eða Pólverja. Það er auðveldara að tala um menningu nýbúa en að sýna henni áhuga í verki. Vandinn við fjölbreytni er nefnilega að hún er ekki auðveld — einkum þar sem fólk er ekkert sérstaklega frumlegt. Það fer í sína Smáralind um leið og aðrir. Það keypti sín verðbréf þegar aðrir voru að kaupa — og auðvitað allir í sömu fyrirtækjunum. Og fyritækin eru raunar jafn ófrumleg og fólkið. Þau hafa öll verið að sameinast og líka sveitarfélögin og meiraðsegja flokkarnir. Núna er í tísku að sameinast og síðan hættir það að vera í tísku og þá hætta markaðsfræðingarnir að tala um efnahagslegt mikilvægi þess. Tískusveiflur ráða miklu í nútímasamfélagi og fjölbreytni er ekki í tísku í verki. Hér hefur óðum breiðst út svokölluð alheimsmenning og allir nema afturhaldskurfar taka henni fagnandi þó að flöt sé. Svo verður líka í tísku að hafa svolítið þjóðlegt með í alheimspottinum og þá má búa til þjóðlega siði, eins og Skotar bjuggu til skotapilsið. Atvinnulífið á Íslandi var einhæft öldum saman og nú fer það senn að verða einhæft aftur. Þó að nýsköpun sé í tísku eru hugmyndir ráðamanna um þá nýsköpun gamalkunnar. Það eru álverin og stóriðjan. Stóriðjutískan reyndar fellur ekki vel að nýjum hugmyndum um umhverfisvernd en svörin við þessu eru gamalkunn: Þeir sem eru á móti stóriðjunni hefðu líka verið á móti innréttingunum í Reykjavík, eða að þeir eru skelfilegir höfuðborgarbúar sem hugsa ekkert um náttúruna í Reykjavík en vilja hafa hana fyrir austan til að eyðileggja líf heimamanna. Það er ekki heldur auðvelt að stuðla að fjölbreytni í atvinnulífinu og kannski ekkert rétt að stjórnvöld séu að því, á annan hátt en með því að hlusta á hugmyndir frá fólkinu í stað eltast sí og æ við sömu álvers-hugmyndina. Hlutverk stjórnvalda er kannski fyrst og fremst að vera víðsýn í hverri gjörð og festa sig ekki í patent-lausnum sem öllu eiga að bjarga í einu vettvangi. En þó að við hermum hvort eftir öðru verðum við samt aldrei eins og því má segja að fjölbreytnin sé náttúruleg. Jafnvel þegar Íslendingar myndast við að tala ensku búa þeir til eigið mál sem enskumælandi menn kannast varla við. Fjölbreytnin verður aldrei kæfð alveg, ekki einu sinni af stórfyrirtækjunum sem vilja leggja undir sig allan heiminn og gera hann sem líkastan. Við sem hér erum viljum trúa á fjölbreytni og þó eigum við eflaust öll til að vera einsýn. Það er ekki auðvelt að hugsa á nýjum brautum því að klisjurnar eru margfalt þægilegri. En þó erum við hér mætt til þess að reyna og ég held að það sé erfiðisins virði. Mín ósk til handa þessari hreyfingu er því að hún verði flokkur þeirra sem eru öðruvísi og flokkur sem leyfir öðrum að vera öðruvísi. áj Fleipur um einangrun Vinstrigrænna I: Austurríki, Þýskaland, Noregur og Svíþjóð 20.10.2001 Nýlega vitnaði Morgunblaðið til þessara orða Björns Bjarnasonar: Vinstri/grænir eru einstæðir meðal stjórnmálaflokka á Vesturlöndum í ótvíræðri andstöðu sinni við stækkun NATO. Þessa fullyrðingu hefur ráðherrann áður sett fram á einkavefriti sínu og full ástæða er til að athuga sannleiksgildi hennar. Hér á landi eru ráðherrar taldir guðlegar verur og litið er á orð þeirra um alþjóðamál sem hálfgerðan stórasannleik. Grípum fyrst niður í nýlegt viðtal við Ulrike Lunacek, talsmann austurrískra græningja. Hún segist algjörlega andvíg því að hernaðarhyggjan móti alla umræðu um utanríkismál og flokkur hennar hefur hvað eftir annað gagnrýnt afskipti NATO af Balkanskaganum. Að sjálfsögðu vilja austurrískir Græningjar að landið sé utan NATO og eru þar síður en svo einangraðir í heimalandi sínu. Austurríkismenn hafa ekki gengið í NATO þó að kalda stríðinu sé lokið og það stendur ekki til. Lýðræðislegi sósíalistaflokkurinn (PDS) í Þýskalandi hefur á stefnuskránni að leysa upp NATO og hafnar alveg hernaðarhyggjunni. Hann er um þessar mundir eini flokkurinn í Þýskalandi sem hefur það á stefnuskránni en ýmsir Græningjar eru þó gagnrýnir á NATO. Eins og þegar hefur verið minnst á hér á Múrnum hefur PDS mikið fylgi í Austur-Þýskalandi og fer síst minnkandi. Sósíalíski vinstriflokkurinn í Noregi vann mikinn kosningasigur nýlega og tvöfaldaði fylgi sitt. Hann vill líka leggja niður NATO en að öðrum kosti að Norðmenn gangi úr hernaðarbandalaginu. Hernaðarhyggjan er eitur í beinum norskra sósíalista og þeir hafa nýlega lýst áhyggjum fyir því að Sameinuðu þjóðirnar verði tæki í höndum stórvelda. Eins og VG vilja norskir sósíalistar að kalda stríðinu ljúki í raun og veru og að í staðinn komi ný hugsun í utanríkismálum. Á Múrnum hefur áður verið minnst á stefnu sænska Vinstriflokksins í þessum málum. Eins og systurflokkurinn í Noregi hefur hann nýlega tvöfaldað fylgi sitt í kosningum. Í Svíþjóð telst að vísu ekki mjög ævintýralegt að vera andvígur NATO. Þar halda menn fast við þá farsælu stefnu að vera utan hernaðarbandalaga. Annar systurflokkur VG þar í landi er Umhverfisflokkurinn (Miljöpartiet) og hefur hann nýlega samþykkt ályktanir um árásirnar í Afganistan sem eru hliðstæðar gagnrýni þingmanna VG. Þessi fjögur dæmi eru nóg til að sýna fram á að formaður aðdáendaklúbbs NATO í heiminum á mikið og erfitt starf fyrir höndum að breiða út fagnaðarerindið. Enda eru mun fleiri flokkar í Evrópu andvígir NATO og verður fjallað um það á Múrnum næstu daga og vikur. Þess væri óskandi að dugmikill sagnfræðingur tæki að sér dragasaman öll þau ósannindi sem íslenskir hernaðarhyggjumenn hafa dreift á seinustu sextíu árum eða svo. Um ekkert málefni stjórnmálanna er virðingin fyrir sannleikanum minni. Fólk hlýtur að velta fyrir sér af hverju það sé. Það er greinilegt að hernaðarsinnar þarfnast þess að engin andstaða sé við hernaðinn. Þannig verður hernaðarhyggjan lögmál en ekki stjórnmálastefna og þá telja þeir eigin ábyrgð á því blóði sem þeir krefjast að sé úthyllt verði minni. Því verður varla trúað að íslenskum hernaðarhyggjumönnum líði vel í hlutverki stríðsæsingamannsins. Fylgispektin við Bandaríkjastjórn gefur hins vegar engin grið. Það hlýtur á hinn bóginn að vera umhugsunarefni fyrir stjórnmálamenn sem að öðru leyti eru grandvarir og heiðarlegir að hafa valið sér málstað sem þolir alls ekki sannleikann, sem krefst þess að þeir séu stöðugt að fara með fleipur og ósannindi. áj Íslensku milljarðamæringarnir — in memoriam 9.10.2001 Verður íslenska þjóðin ríkari árið 2003 en hún var þegar Davíð Oddsson tók við völdum? Það er ekki langt síðan að menn hefðu hrist höfuðið yfir svo kjánalegri spurningu og sagt: Jahá. Það er ekki langt síðan tekið var viðtal við bankastjóra Fjárfestingabanka atvinnulífsins (man einhver eftir honum?) um það hversu margir íslensku milljarðamæringarnir yrðu eftir fáein ár. Þeir þóttu manna heimskastir sem ekki fjárfestu allt sitt í líftækniiðnaðinum — eða þá einhverju enda var Geir Haarde þá að gefa hlutabréfaeigendum skattaafslætti. Munið þið það ekki? Það átti að verða vítamínsprauta í íslenskt atvinnulíf, alveg eins og skattalækkun til fyrirtækja núna. Þetta reyndist líka aldeilis vel heppnað hjá Geir. Svo vel heppnað að núna þarf fleiri vítamín. Menn muna líka eftir fréttunum um úrvalsvísitöluna, svo að ekki sé minnst á verðbréfahorn Kastljóssins. Svo var einhver verðbréfaleikur í gangi í einhverju blaðinu. Ég þykist muna eftir „stjórnmálaliðinu“ sem í voru ungir jafnaðarmenn. Og nú er úrvalsvísitalan aftur á uppleið. Af hverju? Vegna þess að „fjármálamarkaðurinn“ hefur traust á ríkisstjórninni. Mikið líður mér vel þegar ég heyri þetta. Er þetta ekki sami „fjármálamarkaður“ sem græddi fjóra milljarða eitt árið og tapaði fimm það næsta? Ekki að ég hafi mikið vit á svoleiðis. En voru þessir menn ekki líka í sjónvarpinu um árið að segja okkur fávísum að nú á dögum væri gamaldags að framleiða eitthvað og selja það og enn meira gamaldags að skila hagnaði. Þvert á móti félli verð á hlutabréfum iðulega ef fyrirtæki tækju upp á því að skila hagnaði. Því að maður á að kaupa þegar bréfin eru lág og selja þegar þau eru há. Það hvort fyrirtækið skilar arði er algjört aukaatriði í verðbréfaleiknum. Maður nokkur vestanhafs sagði svo skemmtilega að það væri „one sucker born every minute“. Ætli þeir séu nú svo margir á Íslandi en óneitanlega dettur manni í hug að þeir sem hann ræddi um séu fleiri miðað við höfðatölu hér á landi en annarstaðar. Að minnsta kosti hlýtur svo að vera ef þjóðin hefur ennþá trú á þeim „fjármálamarkaði“ sem hefur trú á vítamínssprautum Davíðs Oddssonar og Geirs Haarde. Staðreyndin er nú svo að mannlífið er hálfgerður harmleikur, einkum að því leyti að flestir vilja endilega vera það sem þeir eru síst af öllu. Aðaldraumur Íslendinga hefur löngum verið að vera sniðugir í bisness en eins og góðærið hans Davíðs — þetta sem hvarf og skildi öll hlutabréfin eftir lægri en þau voru fyrir — sýndi fram á er ekki jafn auðvelt að vera íslenskur milljarðamæringur og menn héldu. Eða er það kannski misskilningur? Kannski gengur íslenskur bisness bara út á eitthvað annað en venjulegur bisness. Til að mynda út á það að fá milljarðastyrki frá hinu opinbera. Var ekki stjórnandi fyrirtækis sem tapar stórfé á hverju ári kosinn markaðsmaður ársins skömmu eftir að hann fékk milljarðatryggingar frá hinu opinbera? Aldrei hefur undirritaður þóst vera snjall í bisness. Hann hefur oft undrað sig á því hvað allir aðrir á Íslandi eru miklu snjallari í þessum geira mannlífsins. Samt er eiginlega betra að vera ósnjall í bisness á Íslandi en annarstaðar því að einhvern veginn er það nú þannig að þeir sem eru snjallir í bisness á Íslandi enda oft uppi miklu snauðari en þessir sem ekkert kunna. Eftir nokkur ár í góðum jeppa og stórri höll. áj