18. desember 2016

A4 jólaáskorun

A4 hannyrðir og föndur (sjá hér), skoraði á nokkrar bloggara að koma og skoða allt úrvalið sem er í verslunum þeirra, síðan máttum við velja okkur efni til þess að vinna úr.  Alveg sama hvort um væri að ræða föndurefni, málningu eða garn eða bara hvað sem blés okkur andann í brjóst.  Eina skilyrðið var að þetta væri jólatengt.


Ég fór og skoðaði úrvalið þeirra og var í miklum vanda að velja eitthvað en það tókst að lokum. Ég ákvað að taka bakkaþema og keypti kringlótta bakka sem voru 3 í pakka. Ég krossaði fingur og vonaði að fallegi glerhjálmurinn minn passaði á einhvern af þessum þremur bökkum og það kom í ljós að miðjubakkinn smellpassaði.
Ég keypti líka smávegis krúttlegt skraut sem ég ætla að hafa inni í hjálminum. Ég náði mér í málninguna sem ég fékk í síðustu A4 áskorum, fann afgang af marmarafilmu í geymslunni og hófst handa.




Ég byrjaði á því að mála kantana svarta og sneið svo filmuna inn í botninn.




Kemur bara ljómandi fallega út finnst mér. En kona kaupir ekki 3 bakka í setti og notar bara einn, það er bara bruðl og vitleysa. Mig hefur lengi langað að gera svona kaffi/kakó horn í eldhúsinu mínu og finnst það líka einkar viðeigandi svona á aðventunni. Ég ákvað að hafa þann bakka bláan en ég átti afgang af blárri málningu frá A4 síðan í síðustu áskorun og svo passar blái liturinn líka við hrærivélina mína.



Minnsti bakkinn varð að sápudiski í þvottahúsinu þar sem restin af síðustu áskorun er staðsett. En í fyrra gerði ég þennan kassa upp sem geymir þvottaduftið og málaði rammann með þvottaleiðbeiningum líka.


Ég er alveg súperánægð með þvottahúsið mitt í fallegu íbúðinni minni, þó það sé lítið rúmast alveg ótrúlega vel í því.


Aðrar bloggsíður sem tóku þátt í þessu verkefni eru:


og svo auðvitað skreytum hús en hún Soffía snillingur er tengiliðurinn okkar í þessu verkefni.






4. janúar 2016

Nýtt ár - ný tækifæri



Hálft ár frá síðustu færslu og nýtt ár gengið í garð. Nýtt ár með nýjum tækifærum, gleði og hamingju. Ég verð nú að segja að ég var pínu stressuð fyrir hátíðirnar, hvernig allt myndi ganga fyrir sig þegar allt fjölskylduplanið var breytt en mér til ánægju og yndisauka voru þetta stresslausustu og yndislegustu jól sem ég hef átt síðan ég veit ekki hvenær. Jólaboðunum fækkaði hjá mér og meiri tími var til að njóta þess að vera í fríi og gera það sem mig langaði.

Árið framundan er fullt af spennandi fyrirheitum, skíðaferð í febrúar, stelpuferð í mars, ættarmót í sumar, og svo auðvitað allt þetta litla dagsdaglega sem er ótrúlega mikilvægt líka. Ég ákvað að gera svona krukku eins og ég hef séð á Pinterest, þar sem maður skrifar á litla miða yfir árið allt það góða og skemmtilega sem hefur gerst á árinu og svo þegar árinu lýkur er krukkan opnuð og minningarnar rifjaðar upp.

Megi nýja árið verða dásamlegt og fallegt.

23. júní 2015

Sumar á sunnudögum

Ætli sumarið verði svona, bara sumar á sunnudögum eins og tvo síðastliðna sunnudaga? Þá er um að gera að njóta á meðan er, kasta öllu frá sér og nota blíðuna. Ég byrjaði sunnudagsmorguninn á því að hjóla í sund og svo naut ég veðurblíðunnar á svölunum það sem eftir var dags.
Prjónaði svolítið ...
Fékk mér hádegismat ...
 Naut blómanna sem ég er búin að planta ...
 Prjónaði svolítið meira ...
 Blandaði bleikan sumardrykk ...
Það þarf ekki að vera flókið að njóta lífsins, einfaldleikinn er stundum bestur. Ég vona að við fáum aðeins meira en bara sunnudaga með veðurblíðu í sumar, en ef svo fer ekki þá er bara að klæða sig og haga seglum eftir vindi.

7. júní 2015

Sumarlinkpartý


Stína Sæm sem er með bloggið Svo margt fallegt, kom með þá hugmynd fyrir okkur sem voru með í áskorun A4 að halda sumarlinkpartý, við vorum nokkrar alveg tilbúnar að prófa eitthvað svoleiðis og hér er mín tilraun.
Nú er ég ekki lengur með stóran garð sem þarf að hugsa um heldur litlar krúttlegar svalir sem hægt er að gera huggulegar með minni tilkostnaði en þegar kona á stóran pall og stóran garð.
Ég held samt að hugmyndir mínar um kósí svalir geri ráð fyrir aðeins hærra hitastigi en verður raunin í sumar, en kona má nú láta sig dreyma og ef í hart fer má alltaf klæða sig í úlpu og setjast samt út á svalir. Hér eru mínar hugmyndir á Pinterest. Mig langar líka í 2-3 ker í viðbót, bæði með sumarblómum, kryddjurtum og salati. Svo ætlar tengdasonurinn að koma með grillið sitt á svalirnar og hefur jafnframt lofað að nota það í matseld fyrir heimiliskonur.

Endilega takið þátt í sumarlinkpartýinu, það má alveg taka þátt oftar en einu sinni.

Í þetta sinn er partýið haldið sameiginlega á nokkrum bloggum,
það eru sem sagt fleiri en einn gestgjafi að þessu partýi, svo það ætti aldeilis að verða líf og fjör.
Þetta er þó enn bara sára einfalt fyrir þig.
Þú þarft bara að setja bloggpóstinn þinn hér inn og hann birtist sjálfkrafa á blogginu hjá öllum hinum gestgjöfunum.
Neðst á síðunni er InLinkz hnappur sem þú notar til að setja bloggpóstinn inn og hann er virkur  út júnímánuð.

Gestgjafarnir í þetta sinn eru:
Stína Sæm
Vertu innilega velkomin í Sumar linkpartý 2015

Það eru nokkur lykilatriði að skemmtilegu og velheppnuðu partýi 
sem við viljum að þú hafir í huga ef þú tekur þátt:
1. Heilsaðu upp á gestgjafana, það er jú alltaf góður siður.
Kíktu á bloggin í listanum hér ofar og ef þér líkar þá endilega followaðu.
2. Láttu  vita hvar þú ert.
Taktu fram í sumarbloggpóstinum (helst með virkum linki) að þú takir þátt svo þínir lesendur viti af partýinu.
3. Þú mátt taka með þér vini.
þér er velkomið að deila á fb og bjóða vinum þínum að kíkja og taka þátt.
4. Heilsaðu upp á aðra gesti, það er ekkert gaman að mæta bara og fara án þess að spjalla.
Kiktu á a.m.k. 3 linka sem vekja áhuga þinn, bæði á undan þínum og á eftir og skildu eftir komment.5. Þetta er opið partý út júní.
Þú mátt s.s. setja inn eins marga sumarbloggpósta og þú vilt.


Svo nú er bara að sýna sig og sjá aðra.

25. apríl 2015

A4 áskorun - frh

Jæja ég gat ekki alveg hamið mig af spenningi þó heimilið sé undirlagt í kössum og ryki undan húsgögnum sem hafa verið færð úr stað. Sh** hvað var mikið ryk á bak við kommóður og rúm (við skulum ekki ræða rykið á bak við ísskápinn). Ég snaraði kistunni fram á eldhúsgólf og pússaði aðeins yfir lokið, ég er mjög löt að pússa.
Svo grunnaði ég með einhverjum grunni sem var inni í skáp, gat ekki alveg notað spreyið svona inni í eldhúsi.
Svo var komið að aðalatriðinu, að líma dýrðina á sinn stað, auðvitað var ég mjög fagleg og mældi út miðjuna.
Hmm, þegar búið er að pakka öllum bókum og flestum þungum hlutum deyr kona ekki ráðalaus, heldur brúkar steikarpönnuna sem farg.
Klikkaði samt aðeins á því að fergja ekki endana líka, þeir lyftust aðeins upp. En það reddaðist með smá sparsli.
Ætla ekki að gera meira fyrr en ég er flutt, en nú á bara eftir að lakka yfir með hvítu hálfglans lakki, sauma pullu ofan á og jafnvel fjárfesta í hvítri gæru ofan á allt saman.

Bara 6 dagar í flutninga, er að tapa mér í spenningi.


18. apríl 2015

A4 áskorun 2015

A4 hannyrðir og föndur, skoraði á nokkrar bloggara að koma og skoða þetta mikla úrval sem er í verslunum þeirra, síðan máttum við velja okkur efni til þess að vinna úr.  Við höfðum algerlega frjálsar hendur um efnisval.
Með í þessari áskorun eru 10 önnur frábær íslensk blogg, og ég hlakka ekkert smá til þess að sjá hvað kemur út úr þessu öllu saman!
Hér eru hin bloggin og ég hvet ykkur til þess að fylgjast með þessu frá byrjun til enda:
Síðan er náttúrulega bara málið að smella like á A4 – hannyrði og föndur, á Facebook og þá fáið þið þetta allt saman beint í æð :)
Þar sem ég er að fara að flytja ákvað ég að taka smá meikóver á tveimur hlutum sem eru í þvottahúsinu hjá mér. Það er annars vegar dallurinn undir þvottaefnið og hins vegar mynd með þvottaleiðbeiningum.

 Þennan málaði ég og stenslaði fyrir um 15 árum og fannst kominn tími til að uppfæra hann svolítið.
Í A4 er mikið úrval af föndurmálningu og ég valdi tvo liti frá Mörtu Stewart, fölbláan og svartan.
Inni í skáp fann ég spreybrúsa með hvítum grunni og spreyjaði kassann sjálfan með því tvær umferðir. Skúffurnar grunnaði ég eina umferð með spreyinu og málaði síðan með bláu málningunni, tvær umferðir og stenslaði á þær með svörtu. Ég pússaði svo létt yfir til að fá smá veðrað útlit.




Ég er mjög ánægð með afraksturinn, finnst vera léttara yfir þessu en áður. En svo er það hitt verkefnið sem ég gerði, ég tók líka myndaramma með þvottaleiðbeiningum og málaði í stíl við þvottastampinn.
Þessi mynd hefur hangið í þvottahúsinu hjá mér, svo sem ágætt en mig langaði að breyta þessu aðeins. Ég spreyjaði rammann með sama grunnspreyinu og ég notaði á þvottastampinn. Fyrst hélt ég að allt hefði misheppnast og spreyið væri ónýtt af elli en þegar ég var búin að mála yfir með bláu málningunni og pússa yfir brúnirnar kom þetta bara virkilega vel út.



Á Pinterest er mikið úrval af allskyns svona skiltum, sum eru frí en önnur þarf að borga fyrir. Ég er búin að safna í möppu fyrir nýja þvottahúsið mitt sem er töluvert minna en það gamla.
Ég hafði ekki tíma til að ljúka við allt sem ég ætlaði að gera úr efninu frá A4, ég þarf víst að pakka í kassa og þrífa hér heima líka því flutningsdagurinn nálgast óðfluga en ég ætla að mála kistu sem eldri dóttir mín fékk í afmælisgjöf frá mömmu og pabba fyrir möööörgum árum og hafa hana í forstofunni, jafnvel með pullu ofan á eða hvítri gæru.
Í A4 eru nefnilega til svo dásamlega fallegir skrautlistar sem ég gat ekki staðist og ætla að setja framan á kistuna.
Þetta verður eitthvað ...
Um leið og þetta verkefni klárast koma myndir og svo þegar ég er flutt og allt komið á sinn stað koma fleiri myndir.


2. apríl 2015

Prjónapáskar

Þetta árið eru fjórar fermingar á dagskrá hjá mér, þrjár eru afgreiddar og sú síðasta, hjá elstu ömmustúlkunni minni verður haldin eftir páska. Framundan er því afslöppun með prjónana, gönguferðir og sundferðir en einnig að pakka í kassa, henda og gefa það sem við viljum ekki flytja með okkur.
Ég prjónaði þessa kertalogahúfu fyrir nokkrum vikum og í síðustu viku fékk ég sendan stóran, fallegan þvottabjarnardúsk frá Kína sem fer sérlega vel á húfunni.
Ég byrjaði líka á þessum sokkum fyrir nokkru síðan, er búin með annan (nema hælinn) og komin að hæl á hinum, þetta er bara leti að vera ekki búin að klára sokkana, en ég reyni að telja mér trú um að ég hafi verið upptekin í öðru.

31. desember 2014

Áramótaheit og annar óskapnaður


Áramótin finnst mér alltaf svolítið spennandi í þeim skilningi að þá er heilt nýtt ár framundan með öllum sínum möguleikum og tækifærum. Svona jarðbundin persóna eins og ég er, er alltaf að reyna að komast út fyrir þægindarammann, gera eitthvað nýtt og spennandi, stundum tekst það en oftast er ég of varkár. Mér finnst samt þessi sprengjulæti um áramót ekki spennandi og væri alveg slétt sama um að sleppa þeim.

Samt eru ný tækifæri og ný verkefni alltaf spennandi, jafnvel þó þau séu hversdagsleg.

Ó já, reynum það ...

Spennandi, hvert ætti ég að fara?


Related Posts with Thumbnails