Fara í innihald

Keflavíkurgangan 1976

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Keflavíkurgangan 1976, stundum einnig kölluð Keflavíkurgangan mikla var haldin af Samtökum herstöðvaandstæðinga þann 15. maí árið 1976. Þetta var sjötta Keflavíkurgangan og sú fyrsta sem haldin var í nafni þessara samtaka. Gangan fór fram í skugga harðvítugra átaka Íslendinga og Breta í landhelgisdeilunum.

Aðdragandi og skipulag

[breyta | breyta frumkóða]

Samtök herstöðvaandstæðinga voru stofnuð árið 1972, meðal annars til að tryggja að vinstri stjórnin 1971-74 stæði við loforð sín um að loka herstöðinni á Miðnesheiði.[1] Það mál gekk ekki eftir og voru samtökin því efld og spikulag þeirra endurskoðað frá grunni á ráðstefnu í Stapa árið 1975. Eitt fyrsta verkefni nýrrar miðnefndar var að undirbúa Keflavíkurgöngu.

Landhelgisdeilan við Breta var í algleymingi um þær mundir sem gangan var haldin og setti það mjög mark sitt á hana. Fjöldi fólks, sem lítil afskipti hafði haft af málstað herstöðvaandstæðinga tók þátt í göngunni og göngufólki bárust fjöldi kveðja frá áhöfnum fiskiskipa umhverfis landið. Um 1.300 manns mættu við herstöðvarhliðið og hlýddu á ræðu Karls Sigurbergssonar skipstjóra. Haldnir voru fundir í Hafnarfirði, Kópavogi og á Lækjartorgi, þar sem ræðufólk var: Hörður Zóphaníasson, Svava Jakobsdóttir, Árni Hjartarson og Sigrún Huld Þorgímsdóttir. Andri Ísaksson, formaður miðnefndar SHA, stýrði útifundinum í göngulok sem var gríðarfjölmennur.

Í málflutingi og slagorðum herstöðvaandstæðinga í tengslum við gönguna var óspart hamrað á því að bresku herskipin á Íslandsmiðum væru NATÓ-herskip og mátti sjá kröfuspjöld á borð við „Burt með Nató-freigáturnar“. Sérstakt merki göngunnar var hannað af Eddu Sigurðardóttur, sem starfaði á teiknistofu Gísla B. Björnssonar. Vakti það talsverða athygli og var í kjölfarið tekið upp sem einkennismerki samtakanna, lítillega breytt.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Keflavíkurgöngur - sögusýning á Landsbókasafni“ (PDF).